Leita í fréttum mbl.is

Gleðileg jól hjá okkur:)

Þá eru jólin langt komin og allir komnir í hversdagsfötin aftur á þessu heimili. Við höfum átt yndisleg jól hér á Hrossanesi með tilheyrandi kjötáti, nammiáti, laufabrauðsáti og smákökuáti. Við vorum svo lánsöm að fá tengdaforeldra mína og Ástu "litlu" systur Ragga til okkar yfir jólin og var alveg frábært að hafa þau hjá okkur. Þau komu aðfaranótt sunnudags 21. des. klifjuð af íslenskum mat og öðru góðgæti og að sjálfsögðu jólagjöfum;) Hermann og Siggi Kalli voru vaktir til að geta heilsað upp á afa sinn, ömmu og frænku og voru heldur betur fagnaðarfundir.....sérstaklega var Hermann glaður að sjá afa nafna sinn:) Strax á sunnudeginum var laufabrauðsgerð tekin með stæl, en tengdó komu með 75 óútskornar kökur handa okkur en einnig ákvað ég að prófa að gera sjálf nokkrar kökur líka. Hrönn og Guðný frænka komu ásamt Finni vini okkar og voru yfir 100 kökur skornar út....takk fyrir pent. Að sjálfsögðu notuðum við líka tækifærið og gerðum helling af kleinum líka.....algjör snilld:) Það mun því verða hefð fyrir laufabrauðsgerð hérna hjá okkur í framtíðinni, enda kann ég núna að fletja sjálf út kökurnar, steikja þær og græja. Og einnig færðu tengdó okkur laufabrauðshjól svo ekki verður heldur vandamál að skera út og fletta:)  
Á mánudaginn fór Raggi í lokapróf annarinnar á meðan við hin fórum í bæjarferð í kuldanum og kláruðum að versla inn fyrir jólin. Við kíktum líka í miðbæinn og skoðuðum jólastemmninguna þar....vorum samt ekki lengi þar vegna kulda og strekkings. 
Á Þorláksmessu fórum við svo í skötuveislu hjá Íslendingafélaginu en ég verð að viðurkenna að við litla fjölskyldan fengum okkur nú bara SS pylsur á meðan tengdó og Ásta fengu sér skötu og saltfisk.....já við erum svolitlir gikkir hér á bæ en ég hef aldrei þorað að smakka þessa blessuða skötu og aldrei fílað saltfiskinn......sorry Gulli, hehe!!
Bubbi fiskur og Bubbi legokall:)Á Þorláksmessu fékk Hermann eina gjöf svona "fyrirfram" frá Ástu....en það var gullfiskur í glerkúlu. Þvílík lukka sem það vakti og fékk fiskurinn nafnið Bubbi og var Bubbi Legokall settur í kúluna hjá Bubba fiski:)

Aðfangadag, jóladag og annan í jólum eyddum við hér heima í rólegheitunum en að sjálfsögðu vorum við með möndlugraut í hádeginu á aðfangadag og komu Hallur, Steinunn, Áróra og Árni Hrafn til okkar í grautinn. Það var voða gaman í grautnum en því miður fengu nú börnin ekki möndluna heldur Raggi og Domma tengdamamma en Áróra og Hermann fengu að aðstoða við að opna gjafirnar og byrjuðu strax að pússla jólapússlið sem var í annarri gjöfinni:)
Þegar klukkan sló 6 á aðfangadag borðuðum við léttreyktan lambahrygg og jólaskinku með tilheyrandi og smakkaðist allt alveg rosalega vel. Eftir uppvaskið var svo strax ráðist á pakkana, enda Hermann búinn að spyrja 1000 sinnum hvort hann mætti ekki byrja að opna, hehe. Allt fór þó skipulega fram, enda pakkarnir margir og varð húsmóðirin að hafa kontról á því hver fengi hvað frá hverjum:) Hermann sýndi alveg ótrúlega yfirvegun þrátt fyrir smá spennu á tímabili en hann fékk hvern "McQueen pakkann" á fætur öðrum, en hann fékk þó líka nokkra "ekki McQueen pakka". Að sjálfsögðu var hann yfir sig ánægður með allt sem hann fékk. Siggi Kalli var nú ekki alveg að fatta þetta jólagræ allt saman, en hafði samt nett gaman að því að tæta jólapappírinn og skoða krulluböndin:) Hermann fékk svo að vaka eins lengi og hann vildi og bað hann sjálfur um að fá að fara að sofa þegar klukkan var rúmlega miðnætti, þá alveg búinn á því:)

Siggi Kalli að prófa bílinn frá ömmu Siggu og afa HreinsHermann með Ástu sinni á aðfangadagFjölskyldan að byrja að borðaÉg og Ásta sætar og fínarHermann Veigar glaður með nýju McQueen sængina sína frá ömmu Siggu og afa HreinsaGlaður með bílabrautina frá ömmu Dommu og afa nafnaÉg voða glöð með Georg Jensenið og bókina sem ég óskaði mér:)Á jóladag fengum við góða gesti til okkar í jólakaffi....þau Anita vinkona og fjölskylda komu og einnig komu Steinunn, Hallur og börn líka til okkar og var því hálfgert "Stínu kaffi" hérna hjá okkur, þó með öðru fólki en vanalega....en venjan er að fara í "Stínu kaffi" heima hjá tengdó á jóladag þar sem fjölskyldan hittist með Stínu frænku (ömmusystir Ragga) í fararbroddi:)
Annan í jólum borðuðum við hangikjötið sem tengdó kom með og höfðum það kósý, enda síðasti dagur okkar saman með þeim. Nafnarnir, Raggi og Ástu kíktu líka aðeins á rúntinn en við Domma og Siggi Kalli höfðum það bara rólegt hérna heima á meðan.

Í gærmorgun fóru tengdó og Ásta svo aftur heim til Íslands og var mikil eftirsjá af þeim. Hermann tók því sem betur fer vel þar sem hann veit að hann mun sjálfur fara til Íslands næsta sumar og hitta þau þar (en að sjálfsöðu fattar hann ekki að það er langur tími til næsta sumars!).  Við skelltum okkar svo á jólaball Íslendingafélagsins eftir hádegið og var það mjög gaman. Planið næstu daga er svo að undirbúa áramótin en við ætlum að eyða áramótunum með góðum vinum okkar.

Fallegir jólabræður í náttfötunum:)Sætir á annan í jólum:)Elsku Domma, Hermann og Ásta.....hjartans þakkir fyrir að hafa komið til okkar yfir jólin og gert okkur þennan tíma eftirminnilegan og skemmtilegan. Takk fyrir allar gjafirnar, matinn, nammið og allt það sem þið færðuð okkur, en þó fyrst og fremst fyrir félagsskapinn ykkar. Það var ómetanlegt að fá ykkur til okkar og vonum við að þið hafið notið þess að upplifa "dönsk" jól með okkur. Ykkar verður sárt saknað næstu daga.

Elsku vinir og ættingjar á Íslandi......ástarþakkir fyrir allar gjafirnar, jólakortin og nammið sem þið senduð okkur fjölskyldunni, þetta hitti allt saman vel í mark:) Og takk elsku Svenni og Marzenna fyrir kjötið:)

Að lokum óskum við ykkur gleðilegra áramóta með tilheyrandi sprengjum og látum og vonum að nýja árið færi ykkur öllum mikla gleði og hamingju.


Jæja

Mín með bloggstíflu fyrir allan peninginn.....kannski kreppunni að kenna;)

Dagarnir líða allt of hratt og erum við fjölskyldan heldur betur komin í jólagírinn. Búið að skreyta, Hermann að gera músastiga í jólaföndri hjá Íslendingafélaginusetja upp útiseríur, baka nokkrar smákökusortir og piparkökuhús, kaupa nánast allar jólagjafir og þrífa svona mesta rykið;)
Við erum líka búin að fara í bæinn að taka á móti jólasveininum, búa til jólaskraut með Íslendingafélaginu og skoða jólaljósin í bænum. Nú bíðum við bara eftir að tengdó og Ásta mágkona komi til okkar og þá byrja sko jólin:) Hermann er loksins kominn með aldur til að fatta allt þetta jólagræ og bíður spenntur eftir að fá í skóinn og fá afa Hemma, ömmu Dommu og Ástu í heimsókn. Hann bendir líka á allt dót sem hann sér í bæklingum og biður um svoleiðis í jólagjöf, Siggi Kalli að skoða jólaljósin í miðbænumhehe:)

Raggi er nú reyndar kominn með smá prófstress og verða því næstu vikur álagstími hjá honum. Því miður er prófið ekki fyrr en 22. desember og því lítið sem hann getur notið aðventunnar. En sem betur fer fær hann gott jólafrí þegar prófið er búið:)

Annars er það að frétta hjá okkur að Siggi Kalli er með bullandi hita og er búinn að vera lasinn alla vikuna. Var með rúmlega 40 stig í nótt og er mjög vælinn og vill bara vera á handlegg greyið litla. Vonandi mun hann nú hrista þetta af sér á næstu dögum svo við getum haldið áfram að undirbúa jólin og njóta okkar.

Biðjum að heilsa í bili....en óskum fyrst litlu nöfnu minni, henni Söndru Maríu prinsessu, til hamingju með eins árs afmælið sitt á mánudaginn. Hefðum svo viljað vera í afmælinu þínu elsku frænka.

Jólaknús* 


Þetta er sko ritgerð!!

Mikið var að ég nenni að blogga....

Siggi Kalli algjör dúlla í skírnarkjólnumMamma og pabbi fóru aftur heim til Íslands á laugardaginn og var mikill söknuður á eftir þeim, enda áttum við yndislega daga saman og var tíminn með þeim allt of fljótur að líða. Skírnarundirbúningurinn gekk rosalega vel eins og við var að búast með hana Sigríði í fararbroddi og vorum við mamma voða sáttar við útkomuna úr bakstrinum okkar svona utan við hvað skírnartertan varð frekar ófríð. Allavegana fannst mömmu alveg óþarfi að ég setti myndir af henni á Barnaland, hehe:) Hún smakkaðist alveg rosalega vel og verð ég að viðurkenna Skírnarborðið fína:)að ég var bara stolt af því að hafa getað gert svona köku með mömmu en ekki keypt tilbúna:)
Pabbi stóð sig líka vel í undirbúningnum og var settur í hreingerningarhlutverkið og var pallurinn og gluggarnir eins og nýjir eftir að hann hafði farið þar yfir. Alveg á hreinu að "yfirmaður á útisvæði" átti vel við hann daginn fyrir skírnina, hehe:) Ekki var nú verra að fá svo Kiddu vinkonu til okkar daginn fyrir skírnina því hún var okkur mömmu sérstakur aðstoðarmaður. Takk Við fjölskyldan elsku Kidda fyrir hjálpina*

Skírnin var svo sunnudagsmorguninn og var alveg einstök upplifun að skíra í danskri kirkju. Athöfnin var mjög trúarleg en jafnframt hátíðleg og er miklu meira gert úr skírninni hér en heima. Í lokin fengum við stóru barnabiblíuna frá kirkjunni ásamt merktu kerti og allt frítt....ólíkt því sem er heima. Bæði Hemmi og Siggi voru eins og englar í kirkjunni eins og við var að búast og kvartaði Siggi Siggi frændi og Hrönn (skírnarvottar) ásamt Sigga Kalla og Guðnýju frænkualdrei nema þegar hann heyrði fyrstu tónana í hverjum sálmi.....ekki alveg að fíla orgelið!! Eftir athöfnina komu rúmlega 20 góðir gestir í veisluna til okkar og áttum við skemmtilega stund saman. Siggi Kalli fékk alveg ótrúlega mikið af fallegum gjöfum og þökkum til kærlega fyrir þær.

Vikuna eftir skírnina vorum við mamma og pabbi mikið í búðum og gerðum jólagjafainnkaupin, en einnig fórum við til Árósa og löbbuðum miðbæinn, kíktum Ég og Kidda mínþar á kaffihús og hittum Kiddu vinkona. Einnig fórum við í afmæli til Hrannar skáfrænku og fleira skemmtilegt. Ég var svo heppin að geta klárað flestar jólagjafirnar og sent með mömmu og pabbi til Íslands. Munar þokkalega um það á þessum krepputímum því ekki er nú Pósturinn fríkeypis hérna!

Elsku mamma og pabbi....ástaraþakkir fyrir að koma til okkar og vera viðstödd skírnina. Dagurinn hefði ekki verið eins án ykkar. Takk fyrir alla hjálpina, allar gjafirnar, allar íslensku vörurnar og allt saman....þið eruð frábær!!

Ég og pabbi á kaffihúsiÁ sunnudaginn fórum við svo með strákana okkar í myndatöku og gekk það svona lala....Siggi Kalli var mjög þreyttur og vildi helst bara nudda augun og sjúga snuðið sitt en við höldum samt að snillingurinn hann Simmi ljósmyndari hafi náð nokkrum góðum myndum. Eftir myndatökuna kíktum við í kaffi til Halls og Steinunnar og keyrðum svo til Árósa til hennar Kiddu minnar en hún var búin að bjóða okkur í mat ásamt fleirum vinum.

Mamma mín með ömmustrákana sínaHvað "læknamál" strákanna okkar varðar þá fórum við á fund með talpædagoginum á miðvikudaginn og fengum við útlistað hvað við eigum að gera til að ýta undir málþroskann hjá honum en talpædagoginn ætlar ekki að taka hann sjálf í þjálfun eins og staðan er núna. Meðal annars eigum við að taka upp samskiptabók svo að leikskólakennararnir viti frá hverju hann er að segja þegar þær tala við hann t.d. um hvað hann hafi gert um helgina og geti þá gefið honum meira feedback. Það sama á við þegar hann er að segja okkur hvað hann var að gera á leikskólanum. Einnig eigum við að gera ýmsar æfingar og spila mikið við hann osfrv. Talpædagoginn hittir okkur svo aftur eftir áramótin og metur framfarirnar. Hermann fór líka í heyrnarmælingu á mánudaginn og kom sú skoðun vel út. Læknirinn þar sagði að seinkaður málþroski væri mjög algengur hjá tvítyngisbörnum og því bara eðlilegt að hann væri seinn til.

Hvað Sigga Kalla varðar þá kom hingað sjúkraþjálfari á mánudaginn í síðustu viku og skoðaði hann vel. Hann var þá nýfarinn að nota hendurnar betur til að tosa sig upp og eins lyfta höfðinu frá liggjandi stöðu þannig að hún var mjög ánægð að sjá það. Hún mælti með Pilates bolta til þjálfunar ásamt fleiri æfingum og kemur hún svo aftur eftir mánuð til að meta stöðuna. Hann er semsagt á fullri ferð í að vinna upp kraft og er það alveg yndislegt. Bara vonandi að hann verði orðinn enn betri þegar hún kemur næst;)

Það eru semsagt allir bara glimrandi glaðir á heimilinu og gæti lífið varla verið betra.
Við værum reyndar alveg til í að kíkja til Íslands í smá stund núna og knúsa litlu frænkuna okkar en Begga tengdamóðursystir og Valli eignuðust þriðju prinsessuna sína í síðustu viku. Við fengum sendar myndir frá Bjöggu mágkonu í dag og er hún algjör gullmoli. Innilega til hamingju elsku Begga, Valli, Karitas og Tinna**

Svo er mín elskulega tengdamóðir 55 ára á fimmtudaginn.......til hamingju elsku Domma, vildi óska að við gætum kíkt í kaffi til þín.
Einnig var Elsa Þóra, mín elsta og besta vinkona þrítug þann 27. október.....til hamingju með daginn elsku vinkona.

Ætli þetta sé ekki að verða nóg í bili....skelfilegt að láta svona langt líða á milli blogga....þetta verða heilu ritgerðirnar. Í fyrramálið förum við Siggi í ungbarnasund klukkan 9 þannig að það er best að fara snemma í háttinn svona einu sinni.

Hafið það kreppu-gott kæru vinir.


Allt að gerast

Þá eru mamma og pabbi komin til okkar og var alveg frábært að fá þau.....Hermann taldi niður dagana þangað til þau komu og hefur afi Hreinsi ekki fengið frið í eina mínútu frá því að leika við hann og spila:) Mamma og pabbi komu klifjuð af íslensku góðgæti handa okkur....kjöt, kex, nammi, flatbrauð og margt margt fleira kom upp úr töskunum og fékk Hermann líka pakka sem hann var alsæll með. Takk fyrir okkur elsku mamma og pabbi, takk Harpa og Siggi fyrir sippubandið og takk Erla og Óli fyrir skírnarkjólinn og fötin:)

Af prinsunum mínum er það að frétta að Hermann fór í mat hjá talpædagoginum í gær og munum við svo hitta hana í næstu viku ásamt leikskólakennaranum og ákveða þjálfunina. Siggi Kalli fór á mánudaginn í rannsóknina hjá sérfræðingunum frá sjúkrahúsinu í Randers og fékk góða og ítarlega skoðun. Niðurstaðan er sú að hann er með of slappan efri búk (ekki bara hálsinn) og óeðlilega taugaspennu í vinstri fæti þannig að hann mun byrja í sjúkraþjálfun strax á mánudaginn. Þau voru hins vegar fullviss um að greindin væri í lagi þar sem hann er með svo gott augnsamband, fylgist vel með öllu í kringum sig, brosir og hjalar. Þar sem ekki er ráðlagt að setja svona ung börn í skanna þá vilja þau bíða með það. Við eigum svo að hitta þau aftur í janúar og þá verða þau búin að ræða við sjúkraþjálfarann um hvort að þess verði þörf eða hvort hann verði búinn að vinna upp styrk með réttum æfingum. Semsagt allt að gerast og verð ég að viðurkenna að þetta tekur pínu á mann.....maður er nefnilega vanur að vera "hinum megin við borðið". En auðvitað eru strákarnir mínir þeir flottustu og duglegustu í öllum heiminum og veit ég að þeir eiga eftir að brillera í allri sinni þjálfun. Þeir eru hraustir að öðru leyti, glaðlyndir og hamingjusamir, og það er fyrir mestu.

Á sunnudaginn á svo að skíra Sigga Kalla og fara næstu dagar í að undirbúa skírnarveisluna. Skírnin er mikil trúarleg hátíð hér í Danmörku og er meira gert úr henni en á Íslandi, sem er frábært. Munu 2 önnur börn verða skírð í sömu messu, eitt íslenskt og eitt danskt. Það voru einnig þrjú börn þegar Hermann var skírður á sínum tíma og fannst okkur það voða gaman þannig að við hlökkum mikið til:) 


Nóg að gera á Hesteyri!

Já það er nóg að gera....sérstaklega við að fylgjast með bankastofnunum Íslands fara á hausinn hverri á fætur annarri. Við höfum fylgst með fréttum í gegnum netið og verður að viðurkennast að maður verður pínu svekktur þegar sparipeningur manns minnkar stórlega á "öruggum" sjóðsreikningi, þegar allt verðlag hér snarhækkar í kjölfar falls krónunnar og þegar maður getur ekki einu sinni fengið danskar krónur frá Íslandi þar sem búið er að loka fyrir gjaldeyrisviðskipti og eiga þá á hættu að lenda illa í dönsku bönkunum hérna eins og sumir Íslendingar hafa lent í.
En ég hef ákveðið að taka þessu ástandi með æðruleysi og hugsa til þess hvað maður er nú samt heppinn. Við erum öll við góða heilsu, eigum nóg að borða, þak yfir höfuðið, góða vini og fyrst og fremst frábæra fjölskyldu sem er mikilvægara en allt annað og þakka ég Guði fyrir það á hverju kvöldi.

Annað sem tekur tíma minn hér í Danaveldinu er líkamsræktin, en ég hef reynt að fara daglega og hreyfa mig. Gerði mig meira að segja að stóru fífli í gær í pallaleikfimi. Við Steinunn mættum sprækar inn í salinn 5 mín. of seint og komumst að því eftir að hafa hoppað í þónokkra stund án þess að ná einu spori rétt að við værum í síðasta tímanum af þriggja mánaða prógrammi.......já sæll!! Konurnar í salnum voru búnar að æfa sporin í þrjá mánuði og má hreinlega segja að við Steinunn vorum eins og beljur á svelli í þessar 50 mínútur.....þar að auki var ég fremst í salnum því það var eina lausa plássið. Jeminn hvað ég vildi eiga þetta á video, þá væri nóg að horfa á það til að gleyma ástandinu á Íslandinu, hehe:)

Svo er margt í gangi hjá strákunum okkar þessa dagana.....Siggi Kalli fer í frekari skoðun þann 20. október hjá sérfræðingum út af hálsvöðunum en sem betur fer finnst okkur hann vera allur að styrkjast. Hann er því miður hálf lasinn núna eftir 3ja mánaða sprautuna sem hann fékk í gær og hefur grátið mikið í kvöld og í gærkvöldi...litla skinnið. Mikið er erfitt að horfa upp á barnið sitt gráta svona sárt. Siggi Kalli í ungbarnasundi
Hvað Hermann Veigar varðar þá er hann í ferli núna á leikskólanum út af málþroskanum. Bæði talþjálfi og tvítyngisráðgjafi eru búnir að hitta hann í leikskólanum og mun hann að öllum líkindum byrja í talþjálfun innan skamms. Þeim finnst honum ekki fara nógu hratt fram í dönskunni og einnig er hann mjög óskýr í tali, bæði í íslensku og dönsku. Hann mun því fara aftur í heyrnarmælingu núna í byrjun nóvember að ósk talþjálfans og bíðum við bara eftir fundi með honum núna á næstu dögum. Það má því með sanni segja að við erum mjög fegin að heilbrigðiskerfið sé frítt hérna í Danmörku.......en þó svo væri ekki þá myndi maður að sjálfsögðu ekki hika við að borga þá þjónustu sem gullmolarnir okkar þurfa þessa dagana.

Síðan er mjög stutt þangað til mamma og pabbi koma til okkar, en þau koma 21. október, sama dag og við Raggi eigum 10 ára trúlofunarafmæli og hlökkum við mikið til að fá þau til okkar. Það verður frábært að hafa þau hjá okkur þegar Siggi Kalli verður skírður þann 26. október:)

Þangað til næst....hvenær sem það verður;)


Nú á sko að taka á því!!

Þá er ég búin að kaupa mánaðarkort í ræktinni og er planið að fara í "mor og baby" tíma einu sinni í viku, ungbarnasund tvisvar í viku, sundkennslu með Hermanni einu sinni í viku og í tækjasalinn og jafnvel einhverja tíma þess á milli.....geri aðrir betur!!!

Við Steinunn fórum í kvöld og byrjuðum að hrista appelsínuhúðina og tókum sko þokkalega á því. Þar sem við keyptum "exclusive" kort þá höfum við frían 16465_caucasian_man_in_sweats_swinging_a_whip_while_telling_his_blond_wife_to_keep_exercising_on_a_treadmillaðgang að saunum, nuddpotti, sundlaug, sturtum með heitara vatni og fleiri fríðindum....bara snilld:) Kortið kostaði reyndar bæði augun úr, svona miðað við gengið núna, en þetta er eina kortið þar sem ungbarnasundið fylgir með. Annars þarf að borga um 100 dkr fyrir hvern ungbarnasundtíma og yrði það margfalt dýrara. Inn í þessu korti getum við líka fengið sett upp þjálfunarprógramm fyrir okkur og fengið kennslu á öll tækin.....ekki slæmt það:)

Þannig að nú verður sko tekið á því og vonandi mun ungbarnasundið hjálpa Sigga Kalla að fá meiri styrkleika í hálsinn og Hermanni að læra að synda.
Svo ekki sé tala um hvað geðheilsan verður miklu betri með aukinni hreyfingu, góðum félagsskap og minna skvapi, hehe:) 


Enn send áfram......

Fórum loksins til barnalæknisins í morgun með Sigga Kalla til að láta skoða hálsinn/hnakkann á honum og urðum við fyrir pínu vonbrigðum með þann fund. Auðvitað áttum við von á að fá einhver svör en því miður hafði hún (læknirinn) engin svör til að gefa okkur. Hún skoðaði Sigga Kalla í bak og fyrir, sá að hann er mjög slappur í hálsinum/hnakkanum en gat ekki gefið neinar skýringar, hvorki hvort það væri eitthvað að eða hvort vöðvinn væri bara slakur eftir fæðinguna og þyrfti aðeins auka tíma til að ná styrk. Þó eru góðu fréttirnar þær að honum fer fram og er farinn að halda haus í smá tíma í einu, en ennþá gerir hann ekki vissar hreyfingar eins og að draga höfuð að búk þegar togað er í hendurnar á honum. Eins vill hann ekki vera á maganum og lyftir lítið hausnum frá gólfi nema þá út á hlið.Siggi Kalli krúttbolla

Niðurstaðan er því sú að barnalæknirinn sendir núna beiðni til barnadeildarinnar í Randers (þangað sem við lentum með hann eftir fæðinguna) og þar verður hann skoðaður betur og örugglega myndaður og einnig sendir hún beiðni til sjúkraþjálfara hér í Horsens. En að sjálfsögðu er langur biðlisti á báðum stöðum þannig að við þurfum sennilega að bíða í mánuð eða lengur eftir tíma hjá þeim.
Það sem við getum gert er að halda áfram að láta hann vera sem mest á maganum (eins og hann elskar það eða þannig!!) og einnig setja eitthvað undir bakið á honum hægra megin til að hann halli alltaf hausnum til vinstri þegar hann sefur því hann leitar yfirleitt alltaf til hægri með höfuðið.
Svo nú er bara að bíða og sjá!!!

Barnalæknirinn vigtaði líka Sigga Kalla og mældi......og viti menn....hann er á mörkunum að sprengja kúrfuna á öllum sviðum. Er orðinn 7 kíló, 65 cm. og höfuðmálið 42. Semsagt algjör risi. Samsvarar sér vel en er LANGT yfir meðaltal í öllum þessum þremur þáttur þannig að hann dafnar mjög vel:) Er alveg hættur með magakveisu, er farinn að nota aðeins hendurnar, hjalar á fullu og brosir mikið.....algjört krútt:)


Gleði, gleði.....

Já það er sko gleði hjá mér þessa dagana.....er þvílíkt sæl í mömmuklúbbnum, er byrjuð í leikfimi, er6175_woman_sweating_while_skipping_and_dancing_at_the_gym að byrja í saumaklúbb, byrja á morgun með Hermann í "fimleikum" og svo líður að því að við byrjum í ungbarnasundi með Sigga Kalla og með Hermann í sundkennslu. Alveg frábært að hafa svona mikið fyrir stafni og veit ég að þessi vetur verður sko skemmtilegur og viðburðaríkur:)

Hvað skírnina varðar þá ætlum við að fara á morgun í kirkjuna og sækja um skírnardag en planið er að skíra í lok október. Einnig ætlum við að skila inn umsókn um "vöggustofu" á morgun því það er a.m.k. árs biðlisti á þær og því ekki seinna vænna en að fara að sækja um ef maður ætlar að reyna að hlunkast út á vinnumarkaðinn næsta haust.

Hermann að gefa Sigga Kalla koss.....yndislegastir í heimi:)Raggi byrjaði aftur í ræktinni klukkan 6 í morgun eftir gott sumarfrí og vorum við strákarnir því bara að dúlla okkur saman hér í morgun fyrir leikskólann. Býst ég svo við að Svampur Sveinsson verði tekinn með trompi hér fyrst á morgnana í vetur því að sjálfsögðu vakna bræður MJÖG snemma eins og alvöru strákum sæmir:)

Allt gengur því eins og í sögu hér á Hesteyrinni og er nóg að gera hjá öllum. Það styttist svo í tímann hjá barnalækninum en við eigum tíma með Sigga Kalla þann 24. september. Hann er samt allur að styrkjast og sjáum við mikinn mun á honum. Þó eru vissar hreyfingar sem hann gerir ekki ennþá. En sem betur fer er magakveisan búin og er Siggi Kalli brosandi núna allan daginn og er farinn að hjala á fullu. Alveg yndislegur í alla staði. Hermann talar endalaust um Ísland......segir á hverjum degi, stundum oft á dag "fyrst koma jólin, svo Hemmi afmæli, svo pabbi afmæli, svo mamma afmæli, svo Ísland". Planið er semsagt að koma heim næsta sumar og eyða sumarfríinu þar með fjölskyldunni okkar.....jeminn hvað ég hlakka til:)myYearbookPhoto

Já eitt að lokum.....ég var í klippingu og litun. Er ég ekki fín???


Könguló í morgunmat....næstum því!

Vaknaði við það í gærmorgun að könguló var komin hálfa leið upp í munninn á mér.....og ég er ekki að tala um dordingul!! Ég verð nú að viðurkenna að ég hef nú verið vakin á þægilegri máta:)
Spider_-_Cartoon_6tn_


Ég var klúkkuð (já við segjum klúkk fyrir norðan...ekki klukk:)

Já, hún Kolla mín klúkkaði mig.....

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

Hraðfrystistöð Þórshafnar, Hótel Húsavík, Hamraskóli og SSR (Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík).

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

Dirty Dancing, Top gun, La-bamba og Ghost hafa alltaf verið í uppáhaldi.

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Húsavík, Reykjavík, Svíþjóð og Danmörk.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

House, CSI, Super nanny, Dr. Phil.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

USA, Ítalía, Pólland, Þýskaland 

Fjórar síður sem ég skoða daglega (fyrir utan bloggsíður):

mbl.is, visir.is, dr.dk og barnaland.is

Fernt matarkyns sem ég held uppá:

Allur matur ala mamma, píta, ribs, lasagne. 

Fjórar bækur/blöð sem ég les oft:

Engin sérstök blöð en er yfirleitt með einhverjar bækur í gangi.

Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:

Heima á Húsavík hjá ættingjunum, heima hjá Elsu vinkonu, heima hjá Kollu vinkonu, heima hjá Þórunni vinkonu.....

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

Þórunn, Kidda, Steinunn og Karolína:)


Næsta síða »

Hver er ég?

Berta María Hreinsdóttir
Berta María Hreinsdóttir

Er Húsvíkingur í húð og hár....gift byggingarfræðinema og eigum við tvo fallega stráka . Er þroskaþjálfi og bý í Horsens, Danmörku. Blogga um það sem mér dettur í hug hverju sinni, en sleppi pólítík og öðru sem ég hef takmarkaðan áhuga á!

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband