Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Jólasveinninn er mættur til Horsens......

Fórum í dag með Svavari og Viðari vinum okkar að taka á móti jólasveininum.....fórum reyndar á vitlausan stað til að byrja með en brunuðum svo niður á bryggju þegar við DSC03035föttuðum að hann hafi átt að koma þangað með skipi en akkúrat þegar við komum þá var hann kominn og farinn (alla vegana sáum við hann hvergi). Síðan fór af stað skrúðganga með lúðrasveit í fararbroddi og jólalest þannig að við ákváðum líka að bruna af stað og taka á móti skrúðgöngunni og lestinni niður í miðbæ. Eftir að hafa labbað göngugötuna fram og tilbaka þá loksins fundum við kallinn með síða skeggið......hann var á "jólalestarstöðinni" við kirkjuna en hann var semsagt lestarstjórinn og var að gefa lestarfarþegunum nammi . Litlu guttarnir, Hermann og Viðar, voru voða sælir með að hafa loksins fundið jóla og horfðu á hann gefa nammið en því miður var lestin full þannig að við gátum ekki farið með í þetta skiptið.
Eftir þónokkra stund settist jóli undir stýri og brunaði af stað.....á kirkjuna!! Jú jú, hann hefur greinilega ekkert ekið síðan um síðustu jól og tók aðeins of krappa beygju með þeim afleiðingum að síðasti lestarvagninn skall í hornið á fallegu kirkjunni í miðbænum. Smá öskur heyrðust en enginn grátur þannig að þetta hefur sem betur fer ekki verið alvarlegt. 

Jólalestin

 

Ég held samt að jóli ætti bara að halda sig við hreindýrasleðana því engar kirkjur ættu að flækjast fyrir honum í háloftunum!! 


ROXETTE.......lengi lifi!!!

Ákvað að skella plötu á fóninn í morgun áður en ég hlunkaðist í heimilisstörfin. Leit yfir safnið.....rak augun í gamlan góðan marglitaðan disk og eftir það var allt sett í botn.


roxette4mmFyrir um 15 árum keypti ég þennan disk og drakk hann í mig.....lærði öll lögin utan af og fannst Marie Fredriksson og Per Gessle ÆÐI. Án gríns.....hver elskar ekki svona hárgreiðslu!!!

 Í morgun hef ég semsagt hlustað á allan diskinn, sungið hástöfum, enda kann ég öll lögin ennþá, og notið þess að þrífa, stytta buxur og hugsa um alla fimleika-dansana sem við vinkonurnar bjuggum til við lögin á plötunni.

Svona getur verið gaman að vera einn heima, með lokaða glugga og þenja raddböndin við heimilisverkin. Mæli með þessu!!

 

 Við Elín að dansa á Vestmannsvatni

 

Skyldum við Elín vera að dansa við Roxette??? Ekki ólíklegt:)


Jólasteikin komin í hús......

Klukkan hálf 1 í nótt var jólasteikin mín komin í hús......ég náði í Kollu vinkonu og fjölskyldu á lestarstöðina í gærkvöldi en þau voru að koma frá Íslandi. Þrátt fyrir óhemju farangur þá voru þau svo góð að taka fyrir mig heila tösku frá minum elskulegu foreldrum. Í töskunni voru hvorki meira né minna en léttreyktur lambahryggur og nýtt kryddað læri ásamt jólapökkum og fleiru. Yndisleg sending!!!!

Mitt uppáhald á jólunum er léttreykt lamb og hef ég borðað það alltaf á aðfangadag frá því að ég man eftir mér. Ekki er því amalegt að geta haldið þeirri venju áfram í öðru landi.
Það verður örugglega mikil viðbrigði fyrir okkur að vera bara við þrjú um jólin því við höfum alltaf verið með fjölskyldunni. Ég væri alveg til í að vera á Húsavíkinni með fjölskyldunni um jólin en því miður verður það ekki hægt. En maður verður bara að vera jákvæður og njóta rólegheitanna með maka og barni. Við munum því upplifa dönsk jól í fyrsta sinn og vera ein í fyrsta sinn. Það er samt gott að hugsa til þess að Kolla og Hlynur verða í Horsens um jólin þannig að við getum hitt góða vini um hátíðarnar og er það mikils virði. Einnig munum við örugglega kíkja í kaffi til Sigga frænda og fjölskyldu og verður það eflaust mjög gaman, enda alltaf tekið vel á móti okkur á þeim bænum:)

Takk kærlega fyrir okkur elsku mamma og pabbi og takk Kolla og Hlynur fyrir að burðast með þetta fyrir okkurKissing

GOTT ER AÐ EIGA GÓÐA AÐ.


Jólin eru komin

Íslenskt hangikjöt, kartöflur, rauðkál, grænar baunir frá ORA, uppstúfur, harðfiskur og flatbrauð að norðan, malt og appelsín.......

Hangikjot%20-%20thumbegils_maltysa-rodl-mflatbraudh

Eru einhverjir farnir að slefa????

Þetta borðuðum við fjölskyldan í gærkvöldi með vinafólki okkar í Mosanum, þeim Svavari, Rakel, Viktori og Viðari.  Mikið borðar, mikið spjallað, mikið hlegið. Yndislegt kvöld í frábærum félagsskap.

Ég held bara að jólin séu komin hjá mér, svei mér þá!

Takk fyrir skemmtilegt kvöld kæru vinir.


Baunakosningar í dag!

Ég komst að því í morgun á leiðinni í leikskólann með einkasoninn að það væru kosningar í dag í Danmörku. Það hefur reyndar ekki farið fram hjá mér að það væru kosningar í nánd enda hanga spjöld á öllum ljósastaurum bæjarins af mis-fríðum flokksmönnum og konum. Einnig hafa stjórnmálamenn verið að rökræða í "kastljósum" síðustu daga um hin ýmsu málefni, svo sem innflytjendamál. Ég hef reyndar sýnt þessum umræðum lítinn áhuga, bæði vegna tungumálaskilningsleysis, sem og stjórnmálaáhugaleysis.....enda ekki verið áhugamanneskja um pólitík á Íslandi þannig að ég ætla ekki að taka upp á þeirri vitleysu núna í Danmörku þar sem ég er ekki einu sinni með kosningarétt.

En þar sem ég hef hvergi séð auglýstar kosningarskrifstofur, kosningakaffi og hvað þá kosningapartý þá varð ég mjög hissa að kosið yrði í dag....á venjulegum þriðjudegi!! Ja, nema ég sé svona rosalega óathugul??  Danir virðast taka þessu með stakri ró eins og öllu öðru....alltaf jafn "ligeglad".

Enn og aftur sanna Danir sig fyrir mér....þjóð sem Íslendingar ættu að taka sér til fyrirmyndar hvað varðar stress og óþarfa læti.

dansk_flag

Fyrsta "djammið" í Baunalandi.

Já.....mín fór út á lífið um helgina. Kannski of mikið að orða þetta "djamm" en fyrir mér var þetta bara heilmikið djamm, var úti fram yfir miðnætti og fékk með einn og hálfan öl!!!

Ástæðan var sú að kvenfélag Íslendingafélagsins stóð fyrir mat og keilu fyrir ísl. konurnar í Horsens. Mættum við Kolla klukkan 20 og voru eflaust um 40 stykki af konum sem mættu á svæðið. Þetta var alveg frábært og gaman að sjá hvað það eru margar konur í sömu sporum og maður sjálfur. Í keiluhöllinni er risastór salur þar sem er boðið upp á hlaðborð.....og þá meina ég HLAÐBORÐ. Það var hægt að fá allt milli himins og jarðar, frá salatbar upp í rifjasteikur og allt þar á milli. Eftir mat og kynningu á okkur sjálfum var farið í keilu og var keilað í 2 klukkustundir samfleytt. Ég var sett í lið með formanninum henni Ingu Lóu og stelpu sem heitir Sylvia. Við áttum misgóðar fellur.....eða ekki fellur og skemmtum okkur þrusu vel. Ég fékk meira að segja verðlaun (ásamt nokkrum öðrum) fyrir góða takta og kom því einni rauðvínsflösku og nammipakka ríkari heim:)

Við Kolla í góðum gír

Setti nokkrar myndir inn í myndaalbúmið frá keilunni.....kíkið á þær þið sem viljið.


Nauðsynlegt en erfitt.

Undanfarna þrjá virka daga hef ég verið að aðlaga litla drenginn minn á leikskóla. Það hefur gengið mjög vel, hann hleypur glaður inn á hverjum morgni og virðist mjög ánægður með nýja leikskólann sinn. Hann skilur reyndar mjög takmarkað, eiginlega bara ekki neitt, en hann hefur samt reynt að tala sína dönsku, sem er nákvæmlega bara bulltal sem enginn skilur, en samt mjög krúttlegt. Í gær fór ég frá honum í klukkustund og kvaddi hann mig voða góður en varð pínu leiður rétt eftir að ég fór. Í dag fór ég tvisvar frá honum, fyrst í 2 tíma og svo í 1 og hálfan tíma. Í bæði skiptin kvaddi hann mig voða sáttur en hann grét víst mjög mikið á meðan ég var í burtu. Þetta finnst mér voða erfitt, en engu að síður er þetta bara eðlilegt.....er það ekki annars???

Hann er svo heppinn að Viðar, vinur hans úr Mosanum, er líka á sama leikskóla og hafa þeir náð vel saman á leikskólanum. Viðar er voða góður við hann og hefur hann líka komið með okkur heim í gær og í dag og eru þeir alveg bestu vinir. Í dag fengu þeir að baka með mér pönnsur eftir leikskólann og runnu 7 stykki ljúflega ofan í þá tvo:)
Núna sitja þeir uppi með Ragga og spila og syngja, Raggi spilar á gítar og þeir á trommu og píanó....bara sætt:)

Þrátt fyrir að mér finnist voða erfitt að sleppa takinu af Hermanni og skilja hann eftir á leikskólanum, vitandi að hann muni jafnvel fara að gráta, þá veit ég að þetta er honum fyrir bestu. Og að hann skuli eiga tvo góða vini í leikskólanum sem búa í næstu húsum, Emil og Viðar, er alveg yndislegt:)

Hemmi og Viðar að baka pönnsur

Flottir tónlistarmenn

Hér eru þeir félagarnir að baka pönnsur og spila saman.

 

Tengdamamma mín á afmæli í dag......til hamingju elsku Domma**


Gleði gleði gleði....

Ég fékk símtal í morgun frá leikskólanum á Emils-Möllergade. Þeir voru að bjóða Hermanni að byrja fyrr.....nánar tiltekið Á MORGUN!!!

Ég varð mállaus af gleði....vissi bara ekki hvernig ég ætti að lýsa ánægju minni á dönsku:) En "flot", "fint", og "tak skal du ha" fékk konan að heyra nokkrum sinnum:)

Leikskólakonurnar hringdi nefnilega í morgun í "kommununa" og báðu um undanþágu svo Hermann gæti byrjað núna en ekki 1. desember eins og áætlað var. Ástæðan er sú að Emil (besti vinur Hermanns) byrjaði í morgun en þar sem hann var svo óöruggur þá fannst þeim best að athuga hvort þeir vinirnir gætu ekki byrjað á sama tíma til að auðvelda þeim báðum aðlögunina......og það gekk eftir. Kommunan samþykkti þetta, en samkvæmt reglum mega börn ekki byrja fyrr en 3ja ára og Hermann verður 3ja í janúar.

Ég hef því notað morguninn í að merkja föt, finna skó, regnföt, húfu, vettlinga, leikskólatösku og allt sem fylgir því að byrja í leikskóla. Svo ætlum við mæðginin að tölta í búðina og kaupa nesti fyrir morgundaginn.....enda bergmálar í ísskápnum hjá mér núna.

Semsagt.....gleðidagur á Engblommevej í dag. Hermann hoppaði gleði sína við fréttirnar og vildi fara strax, en ekki "sofa eina nótt og svo í leikskóla".

Önnur gleði kom með póstinum áðan......pakki frá tengdó:) Í honum var harðfiskur að ósk Ragga, gardínufestingar svo ég haldi ekki áfram að moppa gólfin með síðu gardínunum mínum og Superman sokkar fyrir Hermann. Þvílík gleði hjá litla manni með sokkana.....hann fékk strax eitt par og klæddi sig sjálfur í þá og sagðist ætla með þá í leikskólann:)

Hermann með Superman sokkana
Takk fyrir okkur elsku Domma og Hemmi*


Hver er ég?

Berta María Hreinsdóttir
Berta María Hreinsdóttir

Er Húsvíkingur í húð og hár....gift byggingarfræðinema og eigum við tvo fallega stráka . Er þroskaþjálfi og bý í Horsens, Danmörku. Blogga um það sem mér dettur í hug hverju sinni, en sleppi pólítík og öðru sem ég hef takmarkaðan áhuga á!

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband