Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Allt og ekkert!!

Hef ekki verið í neinu bloggstuði síðustu daga....og hreinlega ekkert verið að frétta heldur!!
Við hjónin höfum verið í slökun á daginn þessa vikuna á meðan stubburinn er á leikskólanum. Ræktin og göngutúrinn hefur samt verið á dagskrá og einnig fórum við hjólandi einn daginn að ná í Hermann á leikskólann....þvílík harka!!

Á morgun ætlum við svo að fara í smá ferðalag. Rakel vinkona er 35 ára á morgun og erum við búin Bork havnað panta sumarhús í Bork havn við Ringköbingfjord (á vesturströnd Jótlands) um helgina með þeim fjölskyldunni. Planið er að hafa með sér kerti og spil og hafa það þvílíkt huggulegt:) Á laugardaginn ætlar svo Rakel að hafa afmælismat og munu Kolla og Hlynur ásamt strákunum koma til okkar í sumarhúsið. Þetta verður því örugglega mikið stuð og hlökkum við þvílíkt til:) Dagurinn í dag hefur því farið í að pakka niður og versla fyrir þessa helgarferð. Það þarf að taka heilmikið með sér því ég geri ekki ráð fyrir að það sé neitt í sumarhúsum hérna....einhvern veginn efast ég um að Danir skilji eftir kaffipoka, plastpoka, handsápu eða annað þegar það fer heim úr sumarhúsunum, ólíkt Íslendingunum sem nenna ekki að taka svoleiðis með sér heim:)

Kveð úr roki og rigningu.....hreinlega eins og maður sé staddur í Reykjavík, svei mér þá!!


Frábær dagur í gær!

Dagurinn í gær var heldur betur skemmtilegur. Við fórum rétt fyrir hádegi niður á lestarstöð og náðum í Kiddu vinkonu, en hún kom frá Árósum. Við keyrðum svo strax af stað til Flensborgar.....komum við í Skandinavian Park og gerðum stórinnkaup og fengum okkur einn haugskítugan hamborgara á Burger King. Síðan fórum við inn í Flensburg og gengum þar göngugötuna endilanga, með nokkrum búðarstoppum þar sem Kidda gerði þrusu kaup:)

Strákarnir mínir á Jensens BöfhusVeðrið var nú kannski ekki til að hrópa húrra fyrir en þar sem það var engin rigning þá létum við það ekkert á okkur fá. Eftir góðan göngutúr um göngugötuna brunuðum við tilbaka, alla leið til Árósa. Þar var planið að fara á Pizza hut, enda hefur okkur langað að fara þangað lengi. Þegar við loksins komum þangað þá var okkur tilkynnt að það væri lokað vegna starfsmannapartýs. Við ákváðum að láta þetta ekkert á okkur fá og löbbuðum í skítakulda og roki um miðbæinn í leit að Jensens böfhus. Eftir að hafa fengið ráðleggingar heimalinga þá var okkur loksins beint í rétta átt og var kærkomið að setjast inn á heitan veitingarstaðinn með hélað nefið og frosnar varir:)

Eftir góða setu á Jensens keyrðum við Kiddu heim og vorum svo sjálf komin heim rétt fyrir miðnætti....Hermann að sjálfsögðu steinsofnaður, pakksaddur og sæll með skemmtilegan dag.
Takk fyrir frábæran dag, matinn og gjöfina elsku Kidda mín**

Meiri gleði beið okkar þegar við komum heim.....geisladiskur með myndbandi frá skírn Söndru Maríu frænku og einnig frá áramótunum hjá Svenna bróður og Marzennu. Við Raggi hentum okkur í sófann og horfðum á allt myndbandið, ég að sjálfsögðu fékk þvílíka heimþrá við að horfa á þetta en gat huggað mig við að það styttist í sumarið en þá munu margir úr fjölskyldunni koma til okkar. Það var svo gaman að sjá hvað yndislega frænka mín og nafna er falleg og flott, hefði sko viljað fá hana í fangið í smá stund til að knúsa og kyssa.
Takk fyrir diskinn elsku Svenni og Marzenna....það er frábært að fá svona sendingu**

Planið í dag er að gera helgarþrifin, baka kannski pínu bollur (er ekki bolludagur á morgun?) og kíkja kannski eitthvað í heimsókn. Svo eru bara 5 dagar í sumarbústaðarferðina okkar með Rakel og Svavari:)


Vetrarfrí!!

Kallinn kláraði lokaprófið sitt í gær og er því kominn í annarfrí í tæpar 3 vikur. Já það er skrýtið þetta danska kerfi....allt of stutt sumarfrí, allt of stutt jólafrí en svo langt annarfrí í lok janúar/byrjun febrúar. Á þessum tíma fara margir í ferðalög, en það sem er svolítið skrýtið er að það eru vetrarfrí í öllum grunnskólum hér í febrúar....og það byrjar daginn sem skólinn hjá Ragga byrjar þannig að margir foreldrar eru í fríi núna og svo fara börnin í vikufrí um leið og þeirra frí er búið.....held einhvern veginn að eitthvað yrði sagt á Íslandinu okkar yfir svona óskipulagi.

Allavegana.....við hjónin erum mikið að spá í að nota þennan tíma til að ferðast eitthvað. Þar sem ég stíg ekki upp í flugvél nema tilneydd þá ætlum við að fara keyrandi. Höfum verið að skoða Hamburg, Berlín, París, Amsterdam og fleiri borgir. Við erum nánast búin að ákveða að skella okkur til Hamburg, enda ekki svo svakalega langt að fara þangað og þar er einn stærsti dýragarður í Evrópu sem Hermanni ætti að lítast vel á:) Planið er að gera úr þessu helgarferð, gista á hóteli og njóta lífsins.
Málið er að næsta sumar verður ekkert farið út fyrir landamærin.....Raggi er í skólanum fram í júlí og þá eigum við von á litlu kríli og því lítið ferðast eftir það. En eitt af því sem við Raggi hétum okkur þegar við fluttum hingað út var að nota tækifærið og ferðast um Evrópu eins og við gætum, enda mun einfaldara og ódýrara að fara héðan heldur en frá Íslandi.

Svona til að monta mig þá eru hér fyrir neðan myndir af lokaverkefni Ragga....hann fékk þrusu góða dóma fyrir verkefnið og var alsæll með dönsku kynninguna sína:)

Helmingurinn af verkefninuHinn helmingurinn:)

Nú er komið að því.....

Eftir tvær góðar tilraunir fyrr í vetur og margra mánaða fundarsetu þá komumst við Rakel að þeirri niðurstöðu að göngutúr þrisvar í viku væri málið!!  Þegar strákarnir okkar eru farnir á leikskólann þá ætlum við að arka okkur út fyrir dyr og hreyfa á okkur appelsínuhúðina. Háleit markmið....ég veit.....en nauðsynlegt fyrir líkamlega heilsu og ekki síður þá andlegu!!

Spurning um að fara út í að safna áheitum ef þetta gengur ekki núna......sjáum til:)


IL DIVO og afmæli!

Ég hef oft heyrt um strákana í Il Divo en ekki heyrt nema smávegis í þeim, en það litla Il-Divo---Ancorasem ég hef heyrt hefur heillað mig mikið. Mamma var svo elskuleg að kaupa þessa diska handa mér og fékk ég þá með póstinum í morgun ásamt afmælisgjöfinni til Hermanns frá henni og pabba. Ég setti annan diskinn strax í spilarann og varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Þvílíkar söngraddir og lögin svo rómantísk og falleg. Mæli hiklaust með þessum diskum fyrir þá sem fíla klassíska rómantík:) Takk elsku mamma og pabbi:)

Hlaupabólan hjá Hermanni er í hámarki og verða næstu dagar því auðveldari. Hitinn fór lækkandi í dag, en annars er hann búinn að vera með 39-39,5 stiga hita frá því á mánudag. Raggi í skólanum allan daginn að undirbúa lokaverkefnið og ég heima að mygla. Var reyndar svo heppin í dag að Svavar vinur okkar bauðst til að koma og passa Hermann svo ég kæmist aðeins út.....Gvendólína hvað það var kærkomið. Við Rakel skelltum okkur í miðbæinn, skoðuðum í búðir og fengum okkur kaffisopa á göngugötunni. Yndislegt alveg hreint. Ekki nóg með það heldur buðu þau okkur Hermanni í mat í þokkabót!! Takk elsku Svavar og Rakel....þið björguðuð geðheilsunni minni í dag:)

Annnars ligg ég núna upp í sófa og kyngi síðasta Lindu-Buff munnbitanum......namm!!! Bjögga mágkona var svo elskuleg að senda okkur fullt af íslenskri mæru í vikunni og verður að viðurkennast að íslenska nammið verður bara betra og betra með hverjum mánuðinum sem líður í Danmörku:) Takk elsku Bjögga mín**

Það eru margir vinir og ættingjar sem eiga afmæli í janúar. Elísa Rún átti afmæli þann 14. jan, "amma" Obba þann 15. (sama dag og Hermann minn), "afi" Ói þann 17. Þórunn vinkona, Hrafnhildur og Gunnar þann 19. og Hobba vinkona þann 20. Held að ég sé ekki að gleyma neinum.
TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIN YKKAR ÖLL SÖMUL***

Hermann að skoða myndirnar af sjálfum sér sem hann fékk í afmælisgjöf frá ömmu Siggu og afa Hreinsa

Hlaupabólan mætt á svæðið eftir frábæra afmælisveislu!

Einkasonurinn var með hita í morgun en líka mikið kvef þannig að ég hélt að þetta væri bara einhver flensa.....hef hann heima í dag og vonandi getur hann þá farið á leikskólann á morgun svo hann geti haldið upp á afmælið sitt þar hugsaði ég, enda 3ja ára á morgun. Ákvað svo að kíkja á bakið á honum við morgunverðarborðið og fann þar 4 bólur!! Ekki fer því á milli mála að hlaupabólan er mætt. Báðir vinir Hermanns hafa fengið hana undanfarið en ég hélt að Hermann væri sloppinn (samt hálfpartinn búin að vera að vona að hann fengi hana til að klára hana frá!!).

Sem betur fer kom hlaupabólan ekki degi fyrr því hér var heljarinnar afmælisveisla í gær, með yfir 20 gestum og því verið voða sorglegt ef við hefðum þurft að afboða alla á síðustu stundu. Afmælisveislan var frábær í alla staði. Afmælisbörnin, Hermann og Emil, voru eins og litlir herramenn, báðir í skyrtu og með bindi og voða sáttir með daginn.

Við Kolla skiptum með okkur verkum fyrir afmælið og varð þetta samstarf til þess Afmælisstrákarnir við McQueen kökuna sína:)að það var aldrei neitt stress fyrir afmælið. Enda ekki von á öðru en að allt gangi vel þegar við tökum okkur saman stöllurnar, hehe:) Við bökuðum fullt af fínum kræsingum og svo gerðum við rosa flotta McQueen afmælisköku sem hitti heldur betur í mark:)

Hermann minn fékk svo ótrúlega mikið af fallegum gjöfum, bæði frá afmælisgestum og svo var hann búinn að fá nokkra pakka frá Íslandi sem hann opnaði í gærkvöldi. Þrátt fyrir að við söknuðum fjölskyldunnar heima í gær þá var dagurinn frábær, enda erum við búin að kynnast svo skemmtilegu fólki sem gladdist með okkur í gær:)

Kidda vinkona kom líka frá Árósum á laugardaginn og var hún sérstök hjálparhella hjá okkur um kvöldið og allan sunnudaginn. Hún var nú samt ekki boðin til okkar til að vera "heimilshjálp" en hún vílaði það nú ekki fyrir sér og létti vel undir með okkur.
Takk fyrir alla hjálpina Kidda mín og takk fyrir frábæran dag kæru afmælisgestir:)


Skemmtileg afmælishelgi framundan....

Mikið er gott að það er komið föstudagskvöld og helgin framundan. Vikan hefur verið frekar lengi að líða, kallinn í skólanum fram á kvöld og ég heima að gera mest lítið. Hef þó aðeins verið að baka fyrir afmæli einkasonarins en hann verður 3ja ára á þriðjudaginn og ætlum við að halda upp á afmælið hans á sunnudaginn. Reyndar verður tvöfalt afmæli þar sem Emil, vinur Hermanns, verður 4. ára sama dag og því ætla þeir að slá saman í veislu:)Hermann að baka fyrir afmælið sitt:)

Hermann hefur fengið að vera með mér í bakstrinum í vikunni og má segja að skinkuhornin okkar og pylsuhornin fái ekki útlitsverðlaun ársins. Ekki það að ég sé alfarið að kenna honum um ófríðleika hornanna, en það er bara svo gott að geta kennt honum um svo það sjáist ekki hvað ég er lélegur bakari, hehe:) Segi svona!!

Ég ætla að fara til Kollu vinkonu á eftir að gera afmælisköku strákanna okkar og svo verður aðeins tekið á því á morgun í þrifum og bakstri. Kidda vinkona ætlar svo að koma seinnipartinn á morgun til okkar frá Árósum og vera fram yfir afmælið á sunnudaginn. Kidda á örugglega eftir að hjálpa okkur Kollu við lokaundirbúninginn en planið er að hafa rosa flotta afmælisveislu....með bílaköku og allt, enda CARS þema í afmælinu:)

Það má því með sanni segja að það stefni allt í skemmtilega helgi hjá okkur á "Hesteyri":)

 


Kampen mod autisme!!

Var að enda við að lesa þessa frábæru bók eftir Catherine Maurice. Fyrir ykkur sem ekki skiljið dönsku þá þýðir Kampen mod autisme...Baráttan við einhverfuna.  Einhverfa hefur átt hug minn allan síðustu 8 ár og því var ég ekki lengi að taka þessa bók á bókasafninu þegar ég rak augun í hana. Þrátt fyrir að ég sé nú ekki góð í dönsku þá gekk mér alveg furðu vel að lesa þessa bók, auðvitað skyldi ég ekki öll orðin, en náði samt samhenginu og gat stundum tárast við að lesa upplifun þessarar konu, sem er mjög hreinskilin og opinská í sínum skrifum.

Catherine er móðir þriggja barna og greinast tvö þeirra með einhverfu. Fyrsta barnið er ófatlað en svo eignast hún annað barn ári síðar sem greinist mjög snemma með einhverfu (fyrir 2ja ára aldur). Bókin gerist á 9. áratugnum í USA og er þekkingin á einhverfu ekki komin jafn langt og hún er komin í dag. Þegar Catherine sér að ekki er allt með felldu með dóttur hennar þá hellir hún sér í allar bókmenntir um fatlanir og aðra sjúkdóma sem mögulega gætu útskýrt atferli dótturinnar. Þar rekst hún á þetta orð "einhverfa" en hafði aldrei heyrt um það. Hún fer sjálf af stað og biður lækna að taka hana í greiningu. Eftir langan tíma og viðtöl við marga sérfræðinga þá fær hún greininguna "dæmigerð einhverfa". Henni er sagt að þetta sé ævilöng fötlun sem ekki verði hægt að lækna. Örvæntingin og sorgin sem Catherine og maður hennar ganga í gegnum er rosaleg og lýsir hún því á mjög heiðarlegan og raunverulegan hátt. En hún ákveður að gefast ekki upp og leitar sér upplýsinga upp á eigin spýtur um meðferðarúrræði, enda voða lítil hjálp sem hún fékk frá sínum læknum. Hún velur meðferðarúrræði sem var mjög vinsælt á þessum tíma sem byggist upp á því að móðirin heldur á barni sínu í visst langan tíma á hverjum degi og segist elska það og biður það að fyrirgefa sér osfrv. En grunnhugmyndin í þeirri meðferð er að móðirin bera sök á einhverfunni, meðvitað eða ómeðvitað. Sem betur fer ákveður hún líka, eftir mikinn umhugsunarfrest, að setja barnið sitt í atferlismeðferð Lovaas. Til að gera langa sögu stutta, þá nær hún, með aðstoð atferlisþjálfa, að ná dóttur sinni út úr einhverfunni á aðeins 8 mánuðum. Sömu sögu er að segja um yngsta son hennar sem einnig greinist með dæmigerða einhverfu 2 árum síðar.

Ég hef alltaf haldið í þá trú að hægt sé að ná sumum börnum út úr einhverfunni með því að kenna þeim í gegnum sífellda endurtekningu "rétta hegðun". Hins vegar er mjög sjaldgæft að einhverft barn nái svo miklum framförum sem þessi börn Catherinar gerðu á einungis fáum mánuðum og á þann hátt að við aðra greiningu 2 árum síðar finnast engin einkenni einhverfu hjá þeim. Þau hafa heldur betur verið blessuð. Í lok bókar (árið 1992) eru bæði börnin í skóla og leikskóla án aðstoðar og sýna engin merki einhverfu.

Ég veit að margir myndu ekki trúa þessu, efast um sannleiksgildi móðurinnar eða um réttmæti upphaflegu greiningarinnar. En ég vil trúa því að það sé von fyrir þessi börn, hvort sem batinn verði algjör eða aðeins að einhverju leyti. Það sem gerir mig reiða aftur á móti við lestur svona bóka er hve víðbreið sú skoðun var (og er að einhverju leyti ennþá) að einhverfan sé afleiðing ástleysis eða lélegs uppeldis foreldra, og þá sérstaklega mæðra. Þetta fær mig alveg til að sjá rautt!!!  Ég hef unnið með börnum með einhverfu í mörg ár og kynnst fjölda foreldra. Þessir foreldrar eru á engan hátt ólíkir foreldrum ófatlaðra barna, þau elska börn sín á sama hátt og aðrir og gera allt fyrir börnin sín. Hvernig hægt er að kenna mæðrum um sem eiga jafnvel mörg önnur ófötluð börn mun ég aldrei skilja. Ég get ekki ímyndað mér þá sektarkennd og þá vanlíðan sem þessar mæður upplifa sem fá þann skell framan í sig að þetta sé þeim að kenna....að þær séu óhæfar og eigingjarnar mæður. Mig langar að gráta þegar ég hugsa um það, eins og það sé ekki nógu erfitt að vera í þeim sporum að sjá barn sitt hverfa inn í einhverfuna. Hvað þá að fá að vita það og trúa því að það sé þeirra sök. 

Sem betur fer hefur margt breyst með árunum og þessar ranghugmyndir á undanhaldi, jafnvel horfnar á mörgum stöðum. En eitt er víst.....að börn með einhverfu eru fyrst og fremst börn, með sín eigin persónueinkenni, áhugamál og skapgerð. Það sem ég hef lært á því að vinna með þessum yndislegu börnum er að engin tvö eru eins, það sem virkar á eitt barn, virkar ekki endilega á annað. Þessi bók fékk mig til að trúa enn frekar á atferlismeðferð Lovaas ef hún er rétt gerð og með "rétta" fagfólkinu. En því miður næst ekki bati hjá öllum og eru þá til önnur úrræði eins og TEACCH og félagshæfnisögur, sem ég veit að veita börnunum öryggi og aukin boðskipti ef það er rétt notað. Einnig hef ég alltaf verið á móti því að ekki megi blanda saman úrræðum, sem dæmi finnst mér að TEACCH og atferlismeðferð eigi að notast samhliða, ná því besta á báðu.

En þetta eru nú bara mínar hugmyndir og hugleiðingar út frá frábærri bók:)


Svona er lífið.....

Árið byrjar vel hjá okkur hjónunum......þvottavélin dó með látum þann 2. svo ekki var annað hægt en að fjárfesta í nýrri. Lánið í óláninu er þó að akkúrat núna eru útsölur í fullum gangi þannig að við náðum góðri vél á fínum afslætti, Bloomberg, eins og þurrkarinn okkar, og með sama útlit. Algjör tilviljun að svoleiðis vél var á útsölu í gær þegar við fórum í Punkt 1 að skoða vélar. Ekki þorðum við að bíða með að kaupa hana því ekki var öruggt að hún yrði á afslætti nema í einn dag. Nýja vélin er á leiðinni hingað núna en Raggi og Hallur vinur hans fóru að sækja hana og henda hinni. Sem betur fer fæ ég vélina í dag því Hermann er með í maganum og því þörf á að þvo "skemmtilegan" þvott í kvöld. Gamla vélin er nú ekki svo gömul, rétt rúmlega 8 ára, en hefur í gegnum tíðina þurft að þvo heilmikið magn af skrúfum, nöglum og öðru drasli sem hafa leynst í vinnubuxunum hans Ragga:) Hún hefur aldrei bilað og fór því með krafti núna. Blessuð sé minning hennar)

Við vorum þokkalega heppin í gær í bænum.......byrjuðum á því að fara í Bilka með flöskur í endurvinnsluna og lögðum á bílastæði Bilka sem er við hliðina á Punkt1. Um leið og við löbbuðum inn þá föttuðum við að við höfðum gleymt að stilla P-skífuna. En ef hún er ekki stillt þá getur maður fengið 505 dkr. sekt (eða um 6000 ísl. kr)!! Ég sagði Ragga að við skyldum henda inn flöskunum og stilla skífuna svo áður en við færum í Punkt1, við yrðum enga stund. En akkúrat þegar við löbbum að bílnum (eftir um 5 mín.) þá er verið að skrifa sekt á bílinn!! Ég sagði við konuna að ég hafi verið að koma og hlaupið út þegar ég mundi eftir skífunni. Sem betur fer var konan enn í jólaskapinu og sagði "det er i orden".  Slapp við sekt í þetta sinn:)

Annars er bara fín helgi framundan. Við tókum niður jólatréð í dag, það var orðið ansi slappt og er planið að ég fari á morgun til Árósa með Kollu. Við ætlum að skoða afmælisgjöf handa Hermanni og Emil í Toysrus og kíkja í kaffi til  hennar Kiddu okkar:) Svo verður jólaskrautið tekið niður á sunnudaginn og farið í heimsókn til Rakelar og co.....þau eru að koma heim annað kvöld eftir jólafrí á Íslandi. Við hlökkum mikið til að hitta þau aftur:)

Nóg í bili......


Gleðilegt ár......

og takk fyrir það gamla kæru ættingjar og vinir.

Áramótin voru með því rólegri sem þekkjast á þessum bænum. Við vorum þrjú í kotinu og höfðum það kósý. Kíktum á áramótabrennu Fjölskyldan á áramótabrennunniÍslendingafélagsins hér í hverfinu og fannst Hermanni gaman að sjá stóra eldinn en þó voru flugeldarnir mest spennandi og sprengdum við alla flugeldana okkar strax eftir brennuna svo Hermann gæti verið með:) Venjan á þessum tíma er að vera á gamlárskvöld á Baughólnum hjá tengdó, borða kalkún, horfa á skaupið og sprengja svo upp fyrir "allt of mikinn" pening með allri stórfjölskyldunni:) Á nýjársdag hefur venjan verið að borða með mömmu og pabba í Heiðargerðinu og öllum systkinum mínum og systkinabörnum þannig að við erum vön miklum mannfagnaði og skemmtilegheitum á þessum tíma og verð ég að viðurkenna að mikill söknuður var í mínu hjarta í gær. En ekki þýðir að væla yfir því sem ekki verður breytt þannig að við gerðum þessi áramót bara okkar og nutum þess að vera bara þrjú saman:)

Planið var að borða með Kollu og fjölskyldu í kvöld en því var aflýst vegna hlaupabóluveikinda á þeim bænum. Afgangar voru því borðaðir hér í kvöld og er planið að horfa á áramótaskaupið á eftir og jafnvel grípa í spil ef "nennan" verður fyrir hendi:) En skólinn hjá Ragga byrjar strax á morgun og því fríið búið hjá honum.

Árið 2007 hefur verið með því viðburðaríkasta hjá okkur fjölskyldunni, og stendur þetta uppúr:
Við Raggi fórum til Los Angeles í mars og upplifðum hluti sem við héldum að við myndum aldrei gera, eins og t.d. að keyra að Hollywood skiltinu, labba Rodeo Drive, skoða allar stjörnurnar á Hollywood Boulevard, fara í Universal Studio, skoða ríka hverfið í Beverly hills, fara út að borða á SPAGO og margt fleira. Ástæða ferðarinnar var sú að ég, Kolla og Hlynur, ásamt 2 öðrum þroskaþjálfum/samstarfskonum fórum á stærstu ráðstefnu í heimi í LA og upplifðum margt nýtt og spennandi sem er að gerast í málaflokki fatlaðra. Allt hitt sem við sáum og upplifðum í leiðinni var stór "bónus" þar ofan á:)
Í maí útskrifaðist Raggi sem meistari í húsasmíði en hann var búinn að vera í kvöldskóla með fullri vinnu (og meira en það) í 4 ár, fyrst kláraði hann sveininn og svo meistarann:) Við héldum reyndar enga veislu þar sem Hermann var á spítala vegna eyrnasýkingar af völdum læknis sem fór of harkalega í eyrað á honum við merghreinsun. Veikindi Hermanns urðu til þess að hann þurfti að fara í aðgerð þar sem að sýking fór í beinið bak við eyrað á honum og stóð til að setja dren þar inn. Sem betur fer virkuðu sýklalyfin í æð mjög hratt þannig að nóg var að setja rör í eyrað á honum. Drengur sem aldrei hefur fengið í eyrun, né veikst yfir höfuð, fékk rör í eyrað og var með sýklalyf í æð í 6 daga á spítala, en það er svo sem vel sloppið miðað við það sem hefði getað orðið.
Laugardaginn 7. júlí giftum við Raggi okkur með pompi og prakt í Húsavíkurkirkju. Var dagurinn í alla staði æðislegur og eftirminnilegur. 
Þann 9. ágúst lögðum við af stað með Norrænu til Danmerkur en þangað fluttum við því Raggi ákvað að halda áfram á menntabrautinni og les núna byggingarfræði í Vitus Bering. Margt breyttist við að flytja til Danmerkur og erum við enn að aðlagast nýjum og breyttum lífsvenjum en hingað til hefur mest allt gengið vel.

Árið 2008 verður án efa skemmtilegt hjá okkur því við eigum von á mjög mörgum vinum og ættingjum til okkar í heimsókn, strax í febrúar, um páskana og svo verður fullbókað hjá okkur í sumar, þannig að það ekki hægt að líta á nýja árið nema með tilhlökkun í hjarta.


Hver er ég?

Berta María Hreinsdóttir
Berta María Hreinsdóttir

Er Húsvíkingur í húð og hár....gift byggingarfræðinema og eigum við tvo fallega stráka . Er þroskaþjálfi og bý í Horsens, Danmörku. Blogga um það sem mér dettur í hug hverju sinni, en sleppi pólítík og öðru sem ég hef takmarkaðan áhuga á!

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband