Færsluflokkur: Bloggar
1.4.2008 | 21:09
Í fréttum er þetta helst......
Eitt er víst að ég fæ ekki verðlaun fyrir fjölda bloggfærslna á viku...en hér kemur smá uppdeit á góðar og slæmar fréttir síðustu daga.
Á föstudaginn vann Raggi ásamt hópnum sínum hönnunarkeppni í skólanum, en það var alþjóðleg vika þar sem ensku og dönsku línunni var blandað saman og fólk blandað í hópa af báðum línum. Hóparnir áttu allir að hanna tómstundarhús fyrir skólann og voru tveir arkitektar og 2 eldri nemar fengnir til að dæma verkin. Hópurinn hans Ragga ásamt 2 öðrum hópum voru með þrjár bestu hannanirnar og kom Raggi heim úr skólanum fljúgandi á bleiku skýi.....já eða bjór-skýi því auðvitað var haldið upp á sigurinn með því að kíkja á skólabarinn eftir verðlaunaafhendinguna:)
Helgin leið allt of hratt....fengum Hlyn, Jón Inga og Hafstein í mat á laugardaginn og var voða gaman að fá þá. Þeir feðgar kynntu okkur fyrir Jeff Dunham...sem er bara mest fyndni búktalari ever og var mikið hlegið yfir honum. Mæli með því að þið kíkjið á hann á Youtube.com:) Á sunnudaginn var planið að eyða deginum í Árósum með Rakel, Svavari og strákunum, kíkja með þeim á skauta, fara út að borða og kíkja á Kiddu vinkonu líka. En því miður þurfti Raggi að veikjast og því ekkert skemmtilegt gert þann daginn:(
Í gær fór blessaður bíllinn okkar í 80. þús. km. tjékk og smur. Búið var að segja okkur að kostnaðurinn yrði rúmlega 3000 danskar krónur nema eitthvað stórvægilegt kæmi í ljós....sem við áttum ekki von á að yrði. Um hádegisbilið hringdu þeir frá umboðinu/verkstæðinu með gleðitíðindin!! Allar bremsur í klessu og þyrfti að skipta um allt heila draslið. Ekki nóg með það heldur vildu þeir líka skipta um púst og fyrir þetta þyrfti að punga út 15.000 dkr. eða um 250.000 ísl. krónum. Raggi náði til að fá þá til að sleppa viðgerð á pústi en að sjálfsögðu yrðu bremsurnar að vera í lagi þannig að lokareikningurinn varð 11.500 dkr. eða um 190.000 kr.! Eftir þessar "gleðifréttir" þá ætlaði ég að leggjast í nett þunglyndi en aðeins nokkrum mínútum síðar kom "pósturinn Páll" með pakka handa okkur frá Svenna bróður og fjölskyldu og var pakkinn fullur af íslenskri mæru þannig að það létti mína lund þó nokkuð.....ef í hart fer þá á ég allavegana fullt af nammi til að hugga mig við, hehe:) Takk fyrir okkur elsku Svenni, Marzenna og litla sæta Sandra María.....já og takk elsku íslenska efnahagskerfi fyrir að hafa skitið á ykkur síðustu vikur!!!
Í dag var svo foreldraviðtal í leikskólanum hjá Hermanni Veigari. Þar fengum við mikið hrós fyrir yndislegan og ljúfan dreng:) Honum myndi ganga vel í öllu, aðlagast börnum og pædagogum vel og allt væri eins og það ætti að vera. Það eina sem þarf að fylgjast með hjá honum er blessað málið....því þrátt fyrir að hann tali allan daginn þá virðist enginn skilja hann!! Þar sem íslenskan var ekki komin á gott skrið þegar við fluttum út þá verður erfiðara fyrir hann að læra að tala dönsku og aðskylja þessi tvö mál, þannig að það blandast allt saman hjá honum. Þar sem hann er nú bara rétt orðinn 3ja þá er þetta ekkert áhyggjuefni en í haust verður skoðað hvort hann þurfi talpædagog til að hjálpa sér. Kemur í ljós. En að öðru leyti allt frábært:)
Eftir hádegið í dag var komin sól og blíða þannig að ég skellti mér út á stéttina í sólbað, með Séð og heyrt í kjöltunni og naut þess að láta sólina gefa mér orku....ég held að ég hafi verið sólarsella í fyrra lífi....svei mér þá!! Það sem sólin getur gefið manni mikla orku:)
Á morgun ætlar hún Kidda vinkona úr Árósum kannski að koma til mín í heimsókn og verður æðislegt að hitta hana. Kiddu kynntist ég lauslega hjá SSR (mínum fyrrverandi vinnustað) en svo hittumst við í haust þegar hún kom til að hjálpa Kollu og Hlyn að flytja og eftir það höfum við verið mjög nánar. Við erum jafn gamlar, verðum báðar þrítugar í maí og hreinlega smellum saman eins og "flís við rass". Vá hvað ég hlakka til að hitta hana:)
Svo er heilsan bara upp á sitt besta þannig að ég held að plúsarnir þessa dagana séu bara miklu fleiri en mínusarnir og því bara hægt að vera þakklátur fyrir allt og alla og njóta lífsins:)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.3.2008 | 20:37
Montblogg eftir læknaheimsókn:)
Við fjölskyldan fórum til heimilislæknisins okkar í gær þar sem ég var bókuð í læknisskoðun vegna óléttunnar og Hermann í 3ja ára "tjékk". Ég verð nú að viðurkenna að ég var búin að kvíða svolítið þessari skoðun þar sem ég vissi í raun ekkert hvað ætti að skoða, nema ég var fullviss um að Hermann yrði mældur og viktaður og að ég yrði líka viktuð....en vikt er eitt af því sem ég hata mest í heiminum og ekki stigið á slíkt kvikindi síðan í fyrstu skoðun á 8. viku!
Allavegana.....þegar við komum á læknastofuna þá var Hermann sofandi í fanginu á Ragga eftir langan leikskóladag en vaknaði áður en læknirinn kallaði okkur inn og fór mjög alvarlegur á svip inn í skoðunarherbergið. Þar settist minn maður á stól og rétti fram eyrun....enda það eina sem læknirinn hefur gert fyrir Hermann síðan við fluttum út er að kíkja í eyrun. En þar sem það var hjartað sem læknirinn ætlaði að byrja á að hlusta þá lyfti minn maður bara upp peysunni möglulaust og leyfði honum að hlusta sig í bak og fyrir. Því næst var honum sagt að ganga fram og tilbaka um stofuna til að skoða göngulagið og gerði hann það. Svo var vigtað og hæðin mæld og aldrei heyrðist múkk í mínum manni, gerði bara allt eins og honum var sagt og tók þessu "starfi" sínu mjög alvarlega. Eftir þetta var farið inn á skrifstofuna þar sem eyrun voru skoðuð til þrautar....og aldrei mótmælti Hemmi litli. Þegar skoðuninni var lokið settist læknirinn í stólinn sinn og skráði í gögnin og ræddi við okkur. Á meðan á þessari umræðu stóð sat Hermann með krosslagðar hendur á borðinu og kinkaði kolli með reglulega millibili. Þegar honum var þakkað fyrir að vera duglegur strákur og að hann væri búinn í allri skoðun þá sagði minn maður "má ég fá verðlaun". Frekar fyndinn og auðvitað fékk hann að velja sér verðlaun:)
Hermann fékk rosa fína skoðun, er orðinn 99 cm. og 16 kíló...hár miðað við aldur og "meðaltal" í þyngd...semsagt hár og slank eins og foreldrar sínir, hóst, hóst:) En því miður ætla eyrun að halda áfram að vera til vandræða fyrir hann. Enn gat á hljóðhimnunni en rörið samt farið (sennilega núna um páskana því það hefur lekið gröftur/mergur úr eyranum á honum allt páskafríið). Nú verðum við að vera vakandi fyrir því að hann fái ekki sýkingu og má hann t.d. ekki fara í sund. Sem betur fer eigum við tíma hjá heyrnarsérfræðingi eftir mánuð og þá kemur í ljós hvað verður gert. Greyið litla...smá læknamistök fyrir tæpu ári síðan virðast ætla að hafa langan eftirmála:(
En jæja...þá var komið að minni skoðun.....mér sagt að leggjast á bekk og svo var hlustað á hjartsláttinn í bumbubúanum. Svipurinn á Hermanni var kostulegur...vildi óska að ég ætti hann á filmu!! Eftir að hafa hlustað á skruðningar og hjartslátt þá sagði Hermann "barnið tala". Þrátt fyrir að við reyndum að útskýra fyrir honum að þetta væri hjartað í barninu þá stóð hann fastur á því að það hafi verið að tala og tilkynnti ömmu sinni það síðar um daginn í símann. Því næst fékk Hermann að mæla blóðþrýstinginn á mér með aðstoð læknisins og fannst honum það sko ekki leiðinlegt. Eftir góða skoðun þá bað Hermann lækninn vinsamlegast um að gefa mömmu líka verðlaun!! Greinilegt að hann hugsar vel um mömmu sína þessi elska:) En þegar ég sagðist ekki þurfa verðlaun þá sagði hann mér að ég mætti fá ís!! Algjör dúlla.
Það er alveg yndislegt hvað börnin manns geta endalaust komið manni á óvart....Hermann gerði allt sem hann var beðinn um án þess að mótmæla eða kvarta og var svo áhugasamur um allt sem var verið að gera við mömmu sína....alveg einstakur þessi sonur minn og er ég svo montin af honum.
Hvað viktarófétið varðar.....þá er ég bara búin að þyngjast um 1,5 kíló alla meðgönguna (25 vikur) og flaug í sæluvímu af viktinni aftur:)
Ef bara allar "viktaruppáferðir" og læknaheimsóknir væru svona skemmtilegar......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.3.2008 | 11:46
Páskasælan búin.
Það var mikil sorg í gangi hér í morgun hjá syninum þegar hann vaknaði og sá að amma sín og Ásta voru farnar. "Hemmi líka í flugvél" sagði hann og fór að gráta. Þetta var mikið rætt í gærkvöldi og vildi hann ekki kveðja ömmu sína og Ástu fyrir svefninn og því var bara "góða nótt" látið nægja svo hann færi sáttur að sofa og gæfi ömmu sinni og frænku koss og knús. Þær fóru svo í bítið í morgun á lestarstöðina og svaf þá litli kall ennþá. Eftir mömmuknús og sannfæringu um að hann færi seinna í flugvélina róaðist hann og tók gleði sína á ný, enda leikskóladagur í dag eftir langt frí.
Því miður var þetta páskafrí allt of fljótt að líða. Tengdamamma og Ásta mágkona komu hér aðfaranótt föstudags og var alveg yndislegt að hafa þær hjá okkur. Stoppið var bara allt of stutt. Þær komu færandi hendi og týndu endalaust upp úr töskunum sínum handa okkur fjölskyldunni. Páskaegg, baunir, cocoa puffs, Royal búðingur, norðlenskur ferskur fiskur og margt fleira kom upp úr töskunum ásamt fullt af gjöfum handa Hermanni. Mamma og pabbi sendu okkur líka ýmislegt íslenskt ásamt páskaeggjum og fékk Hermann síðbúnar jólagjafir frá Íslandi líka. Ástarþakkir fyrir okkur þið öll....þið eruð frábær:)
Þrátt fyrir frekar leiðinlegt veður um páskana þá reyndum við að nota dagana vel með tengdamömmu og Ástu. Föstudagurinn fór í bíltúr um Horsens og í "fjallgöngu" upp á Himmelbjerget. Búið var að opna turninn og hótelið þannig að við fórum upp á topp í turninum og svo á hótelið á kaffihlaðborðið. Laugardeginum var eytt í Bytorv og Bilka. Á sunnudaginn tókum við daginn rólega og borðuðum snilldar páskalamb sem þær mægður komu með frá Íslandi og höfðum það kósý fram eftir kvöldi. Í gær fórum við í bambagarðinn í Árósum eftir að Raggi og Hermann höfðu búið til flottan snjókarl á pallinum. Við höfðum með okkur gulrætur í poka og gáfum bömbunum. Síðan löbbuðum við um miðbæ Árósa og fengum okkur að borða þar.
Ég yrði ekki hissa þó að tengdamóðir mín og Ásta yrði þreyttar eftir þessa daga hjá okkur því ekki fengu þær mikla pásu hér á daginn vegna Hermanns sem bað þær í sífellu að leika við sig í boltaleik:) Hann á heldur betur eftir að sakna ömmu sinnar og frænku næstu daga.
Takk elsku Domma og Ásta fyrir að koma til okkar yfir páskana og létta okkur lundina. Takk fyrir allar gjafirnar og matinn.....það var frábært að hafa ykkur hjá okkur:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2008 | 09:18
Gleðilega páska!
Þá er kominn Skírdagur og hér á bæ eru allir komnir í páskagírinn. Búið að þrífa, versla inn og skreyta...þó aðallega með gömlum ungum af páskaeggjum sem ég hef haldið uppá í gegnum tíðina:) Hermanni fannst nú ekki leiðinlegt að fá að skreyta með móður sinni í gær, enda með eindæmum hjálpsamur í öllum heimilisverkum. En það er nú alltaf svoleiðis með hann hvort sem við skreytum með jólasveinum, páskaungum eða öðrum fígúrum að þegar ég raða í beina röð með jöfnu millibili (eins og mér einni er lagið) þá tekur hann allt og setur saman í einn hnapp.....ástæðan jú sú að allir eiga að vera saman!! Þannig að nú fá t.d. litlu páskastytturnar mínar (6 talsins) að vera í einni hrúgu á sjónvarpsskápnum:)
Á þessum tíma á Íslandi var vaninn að keyra norður til að vera með fjölskyldunni og njóta daganna með þeim, borða vel og mikið, lesa málshætti og gleðjast. Að vera svona langt í burtu frá öllum er aldrei auðvelt og fann ég svo sannarlega fyrir því um jólin og áramótin. Þessir páskar verða sem betur fer ekki eins erfiðir og heimþráin ekki eins mikil því tengdamamma og Ásta mágkona koma í kvöld og verða hjá okkur yfir hátíðina....Guði sé lof:)
Margt hefur breyst undanfarin ár hvað varðar hátíðleika páskanna.....þegar ég ólst upp þá var t.d. Föstudagurinn langi mjög heilagur dagur og mátti helst ekkert gera þann dag. Allt sem gert var kom "niður" á Jesú. Við systkinin reyndum að slást sem minnst því ef við slógum þá vorum við að slá Jesú í leiðinni....allavegana var það minn skilningur hvort sem mér hafi verið sagt það eða ekki. Fyrir mér er þessi dagur enn hátíðlegur og finnst mér t.d. alveg út í hött að búðir séu opnar á þessum degi. En svo virðist sem einhverjar búðir hér í Danmörku séu opnar og ég veit að svo er einnig á Íslandi. Ætli páskarnir verði "dottnir út" eftir önnur 20 ár? Fleiri og fleiri skrá sig úr þjóðkirkjunni, fleiri og fleiri eru trúlausir og því spurning hver sé tilgangur páskafrísins...já eða jólanna, því hvort tveggja byggist jú á kristinni trú. En allir þurfa nú frí öðru hverju frá vinnu og skóla og yrði erfitt að fella frídagana úr gildi af trúarlegum ástæðum, svo nokkuð er víst.
Í dag, skírdag, fékk Jesús sína síðustu kvöldmáltíð, á morgun, Föstudaginn langa, var hann krossfestur á Golgata hæð og þjáðist fyrir okkur mannkynið og er algengt að heittrúaðir um allan heim "sanni" trú sína á þessum degi með því að ganga píslargöngu og ganga sumir svo langt að láta krossfesta sig.
Á páskadag steig Jesús upp til himna og eru páskarnir haldnir hátíðlegir til að fagna upprisunni. Kristna trúin byggist mikið á því hvort fólk trúi á upprisuna eða hvort Jesús hafi verið ósköp venjulegur smiður sem hafi dáið á krossinum...já eða bara hreinlega aldrei verið til!! En hver er þá tilgangur lífsins? Erum við bara fædd til að deyja? Ég trúi á upprisuna og eilíft líf og mun halda upp á páskana með þakklæti í huga.
Gleðilega páska kæru ættingjar og vinir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.3.2008 | 19:28
Páskafrí....jibbý!!
Þá eru bæði Raggi og Hermann komnir í páskafrí og er markmiðið að gera sem mest úr næstu dögum. Tengdamamma og Ásta mágkona koma til okkar á skírdagskvöld og hlökkum við voða mikið til að fá þær....enda ekki séð neinn úr fjölskyldum okkar í hálft ár og er mikill söknuður í gangi. Ekki spillir heldur fyrir að með tengdamömmu og Ástu í för eru nokkur stykki íslensk páskaegg og fleira góðgæti...hehe:)
Í gær átti Kolla vinkona afmæli og var okkur boðið í heljarinnar teiti í gærkvöldi. Maturinn var ekkert venjulega góður og flottur (en það er svo sem ekki við öðru að búast hjá frú Kolbrúnu:) og var m.a. gripið í makaspilið "Mr. og Mrs. Smith" þegar leið á kvöldið og var mikið hlegið og gantast yfir því:)
Til hamingju með daginn elsku Kolla og takk fyrir okkur í gær.
Dagurinn í dag var tekinn rólega fram að hádegi en þá var ræst heim til Kollu og co í afganga.....enda nógur matur eftir í aðra stórveislu:) Við fjölskyldan fórum svo í góðan sveitarúnt með Hermann sofandi í aftursætinu, alveg búinn á því greyið eftir kvöldskemmtunina í gær. Planið var svo að fara í heimsókn til Sigga frænda og co en þau voru ekki heima þannig að við skelltum okkur bara á McDonalds og fengum okkur einn haugskítugan hambó. Eftir átið fórum við svo í fínan göngutúr í góða veðrinu......algjör snilld veðrið í dag, sól og blíða og blankalogn:)
Á morgun er planið að gera eitthvað meira skemmtilegt með Hermanni.....fara í Bygholm park, í Matsbypark í Fredericia eða eitthvað annað. Eftir helgina ætlum við svo að fara á grensann og til Flensburgar, til Veijle og fleira skemmtilegt.
Semsagt góðir dagar hjá okkur á "Hesteyri":)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2008 | 20:01
Fyrirséðir Danir...
Þrátt fyrir að það sé margt skrýtið í kýrhausnum hérna í Danmörku þá mega þeir eiga það að þeir hugsa þónokkur ár fram í tímann...ólíkt Íslendingum og íslenska kerfinu!! Sem dæmi þá er öll heilbrigðisþjónusta frí sem væntanlega gerir það að verkum að fólk fer fyrr til læknis ef eitthvað er að hrjá það í stað þess að bíða eftir að vandinn verði meiri og flóknari. Annað dæmi þá er fólk strax sent til sjúkraþjálfara ef það lendir í árekstri til að fyrirbyggja seinnitíma vandamál, sem mér finnst algjör snilld. Í leikskólum er gert "próf" á börnum sem eiga að fara í grunnskóla og ef í ljós kemur að þau eru ekki nógu þroskuð og þurfa eitt ár í viðbót (eða fleiri) í að læra í gegnum leik þá eru þau lengur í leikskólanum til að fyrirbyggja vandamál í grunnskólanum. Þetta má reyndar rökræða fram og tilbaka en að mörgu leyti er þetta mjög sniðugt. Það er því mjög algengt að börn séu ári "á eftir" í skóla og ekkert tiltökumál á meðal barnanna (að mér skilst).
Með póstinum í dag kom svo umslag frá kommununni þar sem við erum boðuð í viðtal niður á kommunu (bæjarskrifstofu) á föstudaginn til að ræða dönskumál Hermanns. Málið er að svo virðist sem hann sé ekki skráður í leikskóla og því er kommunan að bjóða okkur að Hermann fari í dönskukennslu í allt að 15 tíma á viku eða við foreldrarnir látnir fá efni til að kenna honum tungumálið....allt ókeypis að sjálfsögðu:) Þetta er gert til að hann tali góða dönsku þegar hann byrjar í grunnskóla.....sem er "by the way" eftir 3 og hálft ár!! Einhver mistök hafa orðið með skráninguna frá leikskólanum en samt sem áður finnst mér frábært að kommunan skuli spá í svona hluti mörg ár fram í tímann.
Spurning hvort ég fari ekki að fá bréf líka um dönskunám þar sem ég er "bara" heimavinnandi og læri litla dönsku á því......maður spyr sig:)
Reyndar gleymdu Danirnir að hugsa fram fyrir nefið á sér þegar þeir birtu skopteikningarnar....en það er allt önnur ella!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.3.2008 | 21:29
Hanskar...hvað er það??
Eitt af því sem ég á mjög erfitt með að aðlagast hér í Danmörku er hanskaleysi starfsmanna. Hljómar kannski furðulega, en þetta er alveg merkilegur andskoti. Ég hef tvisvar farið í bakarí og keypt brauð og er hvergi einnota hanska að sjá, starfsfólkið tekur brauðið, peningana og pikkar í kassann án þess að spá í handþvott eða hanska. Getur þetta farið alveg óendanlega í pirrurnar á mér, enda að verða 10 ár síðan ég vann í bakaríi í Reykjavík og þar máttum við ekki snerta neitt nema með hönskum og þá var sérstaklega bannað að taka við peningum með sömu hönskum og notaðir voru við að taka brauðið. Þetta gerði það að verkum að hanskafjöldi dagsins á hvern starfsmann var himinhár. En ef við voguðum okkur að taka brauðið með fingrunum þá kom það fyrir að kaupandinn neitaði að taka við brauðinu. Hér í Danaveldi er ekkert spáð í þetta, ekki einu sinni í Medaljon, sem var víst valið bakarí ársins í fyrra!!
Í gær fórum við í Kvickly og þar er "veitingarstaður" þar sem hægt er að fá pylsur, hamborgara, ís og fleira og ákváðu Raggi og Hermann að fá sér pylsu. Það sama var upp á teningnum þar....starfsmaðurinn, sem var ung stelpa, afgreiddi okkur, tók við peningunum, græjaði pylsurnar og rétti okkur. Síðan afgreiddi hún næsta kúnna, tók við peningunum, skellti hamborgurum á grillið, græjaði brauðið, setti sósu, kál, tómata og fleira á hamborgarann og þvoði sér aldrei á milli né setti á sig hanska. Geðslegt ekki satt!!
Þetta gerir það að verkum fyrir mig að ég hef ekki geð á að borða svona mat. En ég er kannski bara svona biluð. Hef alltaf verið svolítið ýkt í handþvotti, sérstaklega eftir hjúkrunarkúrs sem ég tók í KHÍ þar sem farið var yfir handþvott og okkur kennt allt um smitleiðir, bakteríur handa osfrv. Sem dæmi þá er fjöldi baktería undir einni nögl sami og íbúafjöldinn í Svíþjóð!!
Annað sem er svolítið merkilegt með blessuðu Danina er að pylsur eru alls staðar seldar og er t.d. hægt að kaupa pylsur í litlum vagni í Bilka. Þegar við löbbuðum framhjá vagninum í gær þá var hann lokaður. Vagninn stendur á miðjum ganginum og því mikill umgangur í kringum hann, en þrátt fyrir að hann væri lokaður þá var grillið fullt af hráum pylsum. Greinilega búið að undirbúa fyrir næstu opnun og ekkert spáð í sýklana eða umganginn í kring. Ég sæi þetta líðast á Íslandinu okkar!!
En kannski er bara betra að fá smá "bónus" með brauðinu sínu??
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.3.2008 | 18:25
Byrjuð í mömmuklúbbi:)
Í morgun var fyrsti mömmuklúbbshittingurinn minn. Ég var aldrei í neinum svona klúbbi þegar ég gekk með Hermann en hef svo sannarlega þörf fyrir félagsskapnum núna.
Við hittumst í morgun kl 10 heima hjá Steinunni vinkonu hér í mosanum og vorum við fimm alls. Planið var að vera sex en ein var komin að því að fæða þannig að hún gat ekki mætt.
Í hópnum eru bæði stelpur sem ég þekki en líka stelpur sem ég hafði aldrei hitt áður. Við náðum allar mjög vel saman, gátum rætt um fyrri fæðingar og allt sem fylgir óléttunni. Það sem er svo frábært er að ein er búin að eiga og kom með litluna sína í morgun, sem gerir þetta allt enn raunverulegra:)
Við höfum ákveðið að hittast einu sinni í viku, næst heima hjá mér og er planið að fá okkur morgunmat saman og fara svo í göngutúr.....algjör snilld.
Ég hlakka mikið til að kynnast þessum stelpum betur og er alveg í skýjunum yfir að vera komin í svona mömmuklúbb:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.3.2008 | 20:29
Ansi góður brandari sem ég fékk í dag.....
Tveir íslendingar eru úti í sveit að aka og sjá bíl fastan úti í kanti.
Þeir ákveða að hjálpa og fara út úr bílnum.
Þetta eru útlendingar og kunna íslendingarnir lítið í ensku en tekst að spyrja: "Dú jú vant help?"
Útlendingarnir svara " no no this is ok"
Íslendingarnir vilja endilega hjálpa og gefa sig ekki og segja: Jes ví help jú
Útlendingarnir: No no this is ok
Íslendingarnir: Jes jes nó vesen - ví help jú
Þeir ná í reipi í bílinn sinn til að freista þess að draga bílinn - í versta falli að ýta honum upp á vegkanntinn aftur.
Útlendingarnir: What are you gonna do?
Íslendingarnir: First ví reip jú - ðen ví ít jú
Bara varð að leyfa ykkur að "heyr´ann"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.3.2008 | 11:30
Það verður keisari!
Fór í 19. (22.) vikna sónarinn í morgun og var yndislegt að sjá litla krílið sprikla á fullu. Allt gekk vel og kom skoðunin mjög vel út utan við eitt atriði sem þarf að fylgjast betur með. Nýrun eru of stór og þarf ég að fara aftur í sónar á 32. viku og þá verður metið hvað þarf að gera. Ef þau eru enn of stór þá þarf að fylgjast vel með krílinu þegar það fæðist. Vona bara að þetta "gangi til baka" svo allt verði í lagi þegar það kemur í heiminn. Það jákvæða í þessu er að ég fæ að fara í sónar aftur og þá verður barnið orðið svo stórt að það verður örugglega mikil upplifun að sjá það:)
Eftir sónarinn fórum við í viðtal hjá lækni til að ræða fæðinguna. Ég varð mjög glöð að vita það að þegar konur hafa gengið í gegnum fæðingu eins og ég fór í með Hermann og rifnaði eins og ég gerði þá fá þær að velja hvort þær vilja keisara eða ekki. Þannig að það var ekkert mál að fá það í gegn! Áætlaður keisari er í byrjun júlí en nánari dagsetning verður ákveðin síðar. En það er gott að þetta er ákveðið:)
Veðrið í Horsens er frekar vetrarlegt akkúrat núna....kyngir niður snjólufsum en samt logn og 4 stiga hiti....frekar spes:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
ERTU AÐ KOMA TIL HORSENS?
Gisting og afþreying í Horsens og nágrenni
- Matsby legepark Líkt Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík
- Gamli bærinn í Aarhus
- Randers regnskov Ótrúleg upplifun
- Tívolí í Aarhus
- Djur sommerland Ómissandi
- Givskud....dýragarður Frábær dýragarður og leiksvæði
- Legoland Allir þurfa að fara þangað allavegana einu sinni
- Gistihús Fínt fyrir hóp eða stóra fjölskyldu
- Eddugisting Frábært að gista þarna:)
VINIR MÍNIR
Hvað er maður án góðra vina??
FJÖLSKYLDAN
Þeir nánustu**
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar