5.7.2008 | 10:48
Og það var strákur:)
Jæja, þá er fjölskyldan komin heim með nýja fjölskyldumeðliminn. Klukkan 8:45 þann 2. júlí kom fallegur prins í heiminn með keisaraskurði. Þar sem erfiðlega gekk að koma Hermanni í heiminn á sínum tíma þá var ákveðið að fara í keisaraskurð til að koma í veg fyrir erfiða fæðingu og einnig til að taka ekki sjéns á öðrum "stjernekikker", en Hermann kom í heiminn með nefið upp í loftið og kallast það "stjernekikker" á dönsku. Minnstu munaði að sú fæðing myndi enda í keisara, en með margföldum mænudeyfingarskömmtum, þremur sogklukkum og öllum tiltækum ráðum kom hann í heiminn á "eðlilegan hátt", en þá tók ljósan sig til og lagðist ofan á bumbuna og þrýsti honum þannig út. Að sjálfsögðu fór ég sjálf mjög illa eftir fæðinguna og var svæfð med det samme til að hægt væri að sauma og græja. Hermann fór í hitakassa en var fljótur að jafna sig sem betur fer.
Vitandi það að keisarafæðing yrði "ekkert mál" fórum við pollróleg upp á spítala klukkan rúmlega 6 miðvikudagsmorguninn. Þegar loksins náði að mænudeyfa kom í ljós að ég var enn með smá sársaukatilfinningu en þó ekkert að ráði. Því var ákveðið að skera og ná í barnið. Ekki vildi þó betur til en svo að hann var pikkfastur, ekki kominn ofan í grind og því alls ekki tilbúinn til að koma í heiminn. Eftir mikil læti og nokkur tog með sogklukku (sem ég hef reyndar aldrei heyrt að væri notað í keisara) náðist hann út. Verð ég að viðurkenna að sú hugmynd mín að keisarafæðing væri ekkert mál kollféll þarna á augabragði. Án gríns þá hélt ég að þetta væri mitt síðasta......
Í ljós kom að um stóran og myndarlegan dreng var að ræða, 55 cm. og 3900 grömm. Samt alls ekkert á leiðinni í heiminn að sögn skurðarlæknis og ljósmóður. En allt leit vel út fyrst um sinn, prinsinn virtist sáttur og var rólegur í vöggunni sinni á meðan ég var í nettu lyfjarússi. Strax á vöknun var samt tekið eftir því að hann andaði með miklum hljóðum og var læknir fenginn til að hlusta hann. Jú...eitthvað var ofan í honum eins og gerist oft með keisarabörn en með því að snúa honum og hreyfa reglulega þá ætti hann að vinna á því sjálfur. Þegar við komum upp á sængurkvennadeild um hádegið var frábær íslensk hjúkrunarkona sem sá um okkur og fannst henni ekki ennþá í lagi með hljóðin í honum. Um 2 leytið fór hún með hann til læknis og lét kíkja á hann.....í ljós kom að hann var mjög slappur og andardrátturinn ekki eins og hann átti að vera. Hann fékk því súrefni, legvatn var hreinsað betur upp úr honum og síðan var hann settur í hitakassa og brunað með hann í sjúkrabíl til Randers, en það er bær í 45 mín. fjarlægð þar sem góð vökudeild er. Raggi kom svo til mín og tilkynnti mér að prinsinn þyrfti til Randers og ekki væri pláss fyrir mig og kæmi annar sjúkrabíll að sækja mig, sem hann og gerði 2 tímum seinna. Raggi fór svo sjálfur á okkar bíl. Hann kom fyrst við heima til að tala við Hermann og mömmu en þau biðu eftir að hann kæmi að sækja þau til að koma í heimsókn upp á spítalann, enda Hermann orðinn spenntur að koma og sjá litla bróður. Þegar Raggi kom til Randers var búið að græja litla prins í vélar, setja pensilín í æð og skoða hann í bak og fyrir. Sem betur fer var hann þá orðinn hressari en öryggisins vegna var honum haldið undir stöðugu eftirliti í sólarhring með pensilín í æð þangað til allar rannsóknir sýndu að engin hætta var á ferðum og engin sýking í blóði. Allt bendir til þess að hann hafi fengið svona mikið sjokk við að koma í heiminn þar sem hann var ekki tilbúinn og mikið gekk á við að ná honum út.
Á meðan drengurinn var á vökudeild var ég á sængurkvennadeild og Raggi á "hótelinu" en það er eins og hreiðrið heima, nema fyrir alla sem þurfa á meðferðum að halda, sem og foreldra mikið veikra barna á vökudeildinni. Alla nóttina sem prinsinn var á vökudeildinni vorum við vakin á 2-3 tíma fresti til að koma til hans og gefa honum brjóst og knúsa. Það var því lítið um svefn þá nóttina og Raggi fékk góða líkamsrækt út úr þeirri nótt þar sem hann þurfti að labba langa leið til að komast til mín og keyra mig svo í hjólastól niður á vökudeild. Á fimmtudaginn var prinsinn orðinn það hress að við máttum fá hann til okkar og þar sem ég var farin að labba um allt þá fékk ég að fara af sængurkvennadeildinni og á hótelið til Ragga. Þar eyddum við seinni nóttinni öll þrjú og höfðum það voða kósý:)
í gær komum við svo heim um hádegisbilið og fór Raggi fljótt að sækja Hermann á leikskólann. Sá var heldur betur montinn með litla bróður sinn og vill ólmur fá að halda á honum og hugsa um hann. Litli prins bara drekkur og sefur til skiptis og er rosalega vær og góður. Algjörir gullmolar þessir synir mínir:)
Mamma mín stóð sig eins og hetja þessa daga sem við vorum í burtu og sá um Hermann og heimilið eins og henni einni er lagið. Hún sjálf varð 60 ára á fimmtudaginn og var Kolla vinkona svo elskulega að bjóða henni og Hemma í afmælismat og gera henni daginn eftirminnilegan:) Einnig kom Kidda vinkona frá Árósum og var með í afmælismatnum og gisti svo hér heima og var mömmu innan handar alveg þangað til við komum heim. Takk elsku mamma mín fyrir að hugsa svona vel um Hermann fyrir okkur og takk elsku Kolla og Kidda fyrir ykkar aðstoð. Þið eruð frábærar**
Nú er svo bara að bíða og sjá hvort pabbi fái ekki að koma til okkar eftir helgi, læknarnir gáfu honum ekki fararleyfi í gær en það er sjéns eftir helgi. Vonum bara að svo verði og að hann verði orðinn nógu hress til að ferðast til okkar.
Takk fyrir allar kveðjurnar hér á blogginu og á síðunni hans Hermanns**
Tenglar
ERTU AÐ KOMA TIL HORSENS?
Gisting og afþreying í Horsens og nágrenni
- Matsby legepark Líkt Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík
- Gamli bærinn í Aarhus
- Randers regnskov Ótrúleg upplifun
- Tívolí í Aarhus
- Djur sommerland Ómissandi
- Givskud....dýragarður Frábær dýragarður og leiksvæði
- Legoland Allir þurfa að fara þangað allavegana einu sinni
- Gistihús Fínt fyrir hóp eða stóra fjölskyldu
- Eddugisting Frábært að gista þarna:)
VINIR MÍNIR
Hvað er maður án góðra vina??
FJÖLSKYLDAN
Þeir nánustu**
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæhæ
Innilegar hamingjuóskir enn og aftur með litla prinsinn og velkomin heim.
Erum farin að telja dagana þar til við komum og hittumst, aðeins 6 dagar þangað til:)
Bkv. til ykkar allra
Svenni, Marzenna og Sandra María
Svenni, Marzenna og Sandra María (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 11:14
Það gengur á ýmsu með þessa gaura að koma þeim í heiminn. Gott a heyra að allt gengur vel líka stór strákur þarna á ferð. Mér finnst ég sjá svip með þeim bræðrum. Hlakka til að fylgjast með ykkur.
Knús og kossar til ykkar allra,
p.s gott að fá mömmu til sín, þær vita hvað á að gera
Þórunn Guðrún Einarsdóttir (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 12:07
Elsku fjölskylda,
yndislegt að sjá ykkur öll komin heim og að allt gangi vel.
Fallegt að sjá þá bræðurna saman, greinilega stoltur stóri bróðir þar á ferð!!!
Hafið það sem allra best við að kynnast næstu daga.
Knús frá Kiddu.
Kristbjörg Þórisdóttir, 5.7.2008 kl. 14:29
Váá honum greinilega leið mjög vel í bumbunni litla kútnum. :)
Enn og aftur innilega til hamingju með hann!
Bestu kveðjur Karen.
Karen Jóns (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 17:15
Innilegar hamingjuóskir með litla prinsinn. Hermann tekur sig vel út í að passa litla bróðir. Gott að allt gekk vel á endanum. Njótið gjöfina vel. Hafið það gott.
Guðmundur Þór Jónsson, 5.7.2008 kl. 17:41
Já maður hefði nú haldið að koma út um "topplúguna" ætti að vera aðeins auðveldara, en maður veit víst aldrei greinilega.
Vonum bara að þið séuð að jafna ykkur og hafið það sem best. Við hlökkum svo til að sjá gripinn í næstu viku vonandi.
Kossar og knús
Steinka stuð
Steinunn og co. (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 18:37
Hjartanlega til hamingju með fjölskyldustækkunina, elsku Berta. Þú færð strákana þína aldeilsi ekki "ókeypis". Guðisélof fyrir þennan árvökula hjúkrunarfræðing. Sætur strákur og gífurlega líkur Hermanni. Ég sé að Hermann hefur öðlast nýja heimsmynd og aukið sjálfstraust við að eignast lítinn bróður!
Mikið er gott að Kolbrún og Kidda eru þarna í nágrenni við þig.
Gangi ykkur allt í haginn, Berta.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 5.7.2008 kl. 20:49
Úff, flýtirinn alltaf á manni=átti að vera aldeilis en ekki aldeilsi ....
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 5.7.2008 kl. 20:50
Hæ hæ Berta
Aftur til hamingju með litla prinsinn.
Það eru aldeilis fréttir af ykkur ........ gott að allt fór vel og þið eruð komin heim til Ömmu Siggu og Hermanns.
Gangi ykkur allt í haginn og bestu afmæliskveðjur til Siggu ;-)
kveðja Unnur Sig. og allt gengið
Unnur Sig.og co (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 12:21
Blessuð Berta mín og innilega til hamingju með prinsinn þinn.
Gaman að frétta af þér og fallegir drengirnir þínir ... þú ert rík með þá.
Afmælisóskir til ömmu Siggu
Bestu kveðjur, Lilla o.co
ps. átti að skila kveðju frá mömmu ef ég "heyrði" í þér
Lilla Arnórs (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 17:31
Elskuleg......Innilegar hamingjuóskir með þennann myndarlega dreng.....ofsalega fallegur. Hlakka mikið til að kíkja á ykkur í enda júlí áður en við fljúgum til Íslands og áfram til USA. Kveðjur frá heimilislausum (þessa stundina)
Kata og co
Kata, Óskar og Amelía (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 18:07
ooooooooooh, eeen flottur. Bara update af Hermanni Veigari. hehe.
Til hamingju með þennan flotta nýja fjölskyldumeðlim, kæra fjölskylda. Vonandi komist þið öll í ættarútileguna á næsta ári.
Kveðja, Vala, Gísli og Elís
Vala Ólöf Jónasdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 12:12
Elsku Berta, Raggi og Hermann stóri bróðir Innilegar hamigjuóskir með litla kútinn...Maður bara fékk eiginlega tár að lesa þessar fréttir Berta mín, en gott að allt gekk vel að lokum og þið eruð komin heim með hann...Hafið það sem allra best og knús á línuna...Kv. frá Hú...Jóna Björg
Jóna Björg Pálmadóttir (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 20:52
Heyrðu, jöhh minn, var ekki eins árs brúðkaupsafmæli líka hjá ykkur í dag??? Var bara að fatta það núna. Til lukku með daginn.
Gaman að sjá litla sætasta í dag;)
kv. sogh
Steinunn (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 22:45
Innilega til hamingju með strákinn, hafðu það gott. Kv. Tommi
Tómas Ingi Adolfsson, 8.7.2008 kl. 00:59
Hæhæ
Innilegar hamingjuóskir með prinsinn.
hann er ekkert smá mikið krútt. Gullfallegur drengur.
ástarkveðja frá seyðisfirði
Heimir þurý og Stelpurnar
Heimir (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 10:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.