Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Luktirnar komnar á!

Við familíjan skelltum okkur í hjólreiðartúr seinnipartinn í gær og kíktum í heimsókn til Sigga frænda míns og fjölskyldu í næstu "sveit". Við stoppuðum aðeins lengur en planað var og þegar við vorum að fara frá þeim var komið myrkur, ekki alveg svartamyrkur en það stefndi í það óðfluga. Siggi frændi benti mér á það að ef löggan sæi okkur þá yrðum við sektuð um 550 kr. danskar fyrir hvort hjól. 550 krónur samsvarar um 6000 ísl. krónur (svona fyrir ykkur sem ekki fylgist með genginu:) Við fengum náttúrulega nett spark í rassgatið og hjóluðum heim eins hratt og pedalar toguðu og vorum Guðslifandi fegin að engin lögga var á ferðinni. Í dag var það því fyrsta verk að bruna í Fötex og kaupa luktir á hjólaparið. En það skal tekið fram að það verður að vera lukt að framan og aftan ef ekki á að sekta mann!!
Þetta finnst mér snilld við Danmörku......það er sektað fyrir allt. 550 kr. ef þú gleymir að stilla P-skífuna í bílnum þegar þú leggur honum, 550 kr. ef þú hjólar á gangbraut, 550 kr. ef þú labbar yfir á rauðum kalli osfrv.  Við Raggi höfum ekki alveg lært þessar ströngu reglur og hjóluðum "óvart" upp á gangstétt um daginn og vitir menn.....fengum hróp og köll á eftir okkur frá manni sem var að viðra hundinn sinn á gangstéttinni. Hvað blessaður kallinn sagði veit ég ekki...en eflaust eitthvað mjög vandað.

Það eina sem mér finnst vanta við þessar ströngu reglur Dana og háu sektir er að það er örugglega ekki sektað fyrir að hundurinn þinn skvetti úr sér nettum dodda. Alls staðar eru standar með pokum fyrir hundaeigendur en samt er alltaf hundaskítur um allt. Ég t.d. náði einum nýbökuðum um daginn.......var að forðast að keyra ekki barnakerrunni á gamla konu á hjóli og fór með vinstri dekkin beint yfir miðja hrúguna. Við náðum með engu móti að ná ógeðinu af dekkinu með því að fara í gras og hjakkast þar með kerruna og þurftum að smúla dekkin þegar við komum heim.
Ég hefði náttúrulega bara átt að láta vaða í gömlu kellinguna!!! Segi svona!!


Kítl í klobba eða brókafæla????

Ég á rosalega fínar útisnúrur. Ég keypti þær af fyrrum leigjendum íbúðarinnar og varð alsæl með þau kaup. Ég hef búið á 3 stöðum í Reykjavík undanfarin ár og hvergi verið aðstaða fyrir útisnúrur, en ég er alin upp við það að hengdur sé út allur þvottur, hvort sem er í 20 stiga hita eða -20 stiga gaddi. Þegar ég flutti hingað til Danmerkur þá varð ég voða dugleg að hengja út......í 3 daga. En þá komst ég að því að það þurfti helst að þvo allan þvott aftur eftir að hann hafði hangið úti. Málið er að það er ekkert venjulega mikið af köngulóm hér í Mosanum og vefirnir eru ÚT UM ALLT. Ef ég t.d. skúra ekki á hverjum degi eldhúsgólfið þá fyllast öll horn af vef, alveg satt!!
En ég hef semsagt ekki hengt út þvott núna í næstum 2 mánuði og þurrka allt á þvottagrind inn á baði við opinn glugga sem ég er búin að strengja net yfir til að forðast flugur og önnur kvikindi og á álagstímum stilli ég viftu sem blæs á þvottinn líka.

Þess vegna furða ég mig alltaf á því hvernig Danirnir fara af því að hengja svona mikið út eins og þeir gera. Alls staðar hangir þvottur, ýmist í görðum eða í bílskýlum. Ég get rétt ímyndað mér vefina á þvottinum þegar hann er tekinn inn. Stundum sé ég nærföt hanga úti líka, ekki bara sokka...neiiiii....heldur brækurnar líka. Ég fæ þá alltaf hroll í pjölluna og hugsa til þess að það hljóti að vera slatti af vef, jafnvel heilu dordinglarnir sem leynist í spjörunum. Ja nema brækurnar séu bara hreinlega óhreinar og séu hengdar út á snúru til að fæla burtu köngulærnar svo þvotturinn fái frið??!!??!! 

Cartoon_Spider


Skítur skeður!!

Í morgun fórum við Hermann litli á róló.......það er nú ekki frásögum færandi nema að því leyti að ég varð fyrir nettu áfalli. Við höfum ekki áður farið á þennan tiltekna leikvöll hér í Mosanum og við munum ekki fara þangað aftur!! Öll tækin ónýt, öll málning farin af, búið að brjóta handföng og annað af leiktækjunum, rennibrautin smurð í sanddrullu þannig að það eina sem virkaði var lítið krúttlegt hús sem Hermann notaði sem búð. Eftir að hafa verslað pylsur, pizzur, Svala og fleira fyrir gervipening þá varð mér litið inn í húsið. Á einum veggnum var búið að fletja út og klína mjög snyrtilega stórum hundaskít. Mér varð þá litið í kringum mig og sá að það var hundaskítur um allt. Þvílíkur og annar eins vibbi......svo ég tali nú ekki um allan kattaskítinn sem við óðum án þess að taka eftir því enda er sá skítur ansi líkur sandinum eftir rigningu síðustu daga, en ég veit að það er nóg af honum, enda kettir út um allt!!!  Ég er nokkuð viss um að þeir drengir (já ég segi drengir, því stúlkur myndu aldrei hafa geð á að klína hundaskít) sem klíndu hundaskítnum hafa bara hreinlega ekki haft neitt annað að gera á leikvellinum. Öll tækin ónýt og ekkert við að vera og þá verður maður bara að nota þann efnivið sem maður finnur og nota svo hugmyndaflugið.

Í Mosanum (leiguhverfinu okkar) eru um 200 íbúðir og þar af búa Íslendingar í tæplega helming þeirra. Ætli það sé ástæðan fyrir þessum ónýta leikvelli??? Við vitum að skemmdarfíkn Íslendinga er engu lík.  Maður spyr sig........


Loksins myndir og Billund er bara LEGÓ!

Ég fékk góða sendingu með tengdaforeldrum mínum sem komu frá Íslandi í gærkvöldi. Eins og þið kannski vitið þá giftum við Raggi okkur í sumar (07.07.07) í Húsavíkurkirkju með pompi og prakt en það var að sjálfsögðu löngu kominn tími til þess eftir 10 ára "forleik".

En allavegana....mínir elskulegur tengdaforeldrar komu í gærkvöldi með flugi og sóttum við þau til Billund. Þau komu með ýmislegt góðgæti frá Íslandi til okkar. Mamma mín og pabbi sendu okkur einnig góðan poka. Takk elsku mamma og pabbi og tengdó fyrir okkur. Það sem við biðum spenntust eftir voru þó brúðkaupsmyndirnar okkar. Við vorum nefnilega með 2 ljósmyndara sem fylgdu okkur allan daginn sjálfan brúðkaupsdaginn en Ásta mágkona mín sá um að "græja" þessa ljósmyndara. Við sjáum sko ekki eftir þeirri ákvörðun og fengum æðislegar myndir á disk frá ljósmyndurunum í gær og hef ég sett nokkrar myndir inn fyrir ykkur til að skoða. Ég mun einnig setja inn fleiri myndir á heimasíðuna hans Hermanns Veigars og getið þið kíkt á þær ef þið nennið og viljið.

Nýgift undir Húsavíkurfjalli 

Annars er það að frétta að Billund er ekki skemmtilegur staður að mínu mati...ekkert þar að gera nema Lególand, en við komumst að því í gær þegar við fórum snemma til Billund til að eyða deginum þar þangað til við myndum sækja tengdó á flugvöllinn um kvöldið. Við keyrðum um alla Billund fram og tilbaka til að finna eitthvað að gera en enduðum á leiksvæði á tjaldsvæði bæjarins. Frekar hallærislegt það en Hermann var sáttur þannig að markmiðinu var náð.

Í dag fórum við fjölskyldan með tengdó til Randers í Regnskóga"dómið". Það var heldur betur upplifun. Þvílíkur hiti og raki, allt fullt af maurum og köngulóm, óhemjulega vond lykt og allur pakkinn. En váá.....þetta var geggjað. Mæli með þessu, sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af því að svitna mikið.

Hafið það gott greyin mín og farið varlega inn í næstu viku.


Wonders and big marks........

 Já það voru heldur betur undur og stórmerki sem gerðust í gær. Ég og Rakel, nýja vinkona mín, hlunkuðumst loksins í göngutúr. Við höfum rætt það í nokkrar vikur að fara í líkamsrækt en af einhverjum óútreiknanlegumWhistling ástæðum hefur ekkert orðið úr því.....þangað til í gær!

Við vinkonurnar hentumst af stað í fínum úða um 5 leytið og vorum rétt komnar af stað þegar gerði þessa líka fínu rigningu. En þar sem við erum nú býsna vatnsheldar þá létum við það sko ekkert á okkur fá.....í klukkutíma örkuðum við milli sjávar og sveita og nutum þess í botn. Kannski ég ýki pínu með sjóinn og sveitina....en við gengum hér um hverfið og inn í skóg holdvotar eins og eftir dýfu í sjóinn þannig að fílingurinn var sá sami.

Við vorum býsna rosknar með þetta framtak hjá okkur og stefnum á að gera þetta aftur.....jafnvel bara nokkuð oft aftur. En best er þó að vera ekki með neinar fullyrðingar því eins og þið vitið þá er stundum erfitt að standa við stóru orðin.

Takk Rakel mín fyrir þrusu göngu og gott spjall.

Og svona fyrir ykkur hin sem nennið ekki að hlunkast í göngutúr....þá mæli ég með þessari speki hér að neðan sem ég fékk sent í gær og finnst algjör snilld.

Yesterday is history, tomorrow is a mystery, but today is a gift, that’s why its called the present.


Fákurinn mættur á svæðið!!!

Ekki nóg með það að eiginmaðurinn sé með nokkur vel valin húðflúr á handleggjunum, heldur á hann núna  mótorhjól líkaWink  Er ég nokkuð viss um að þessi lýsing hljómar eggjandi í eyrum sumra kvenna......arggggg!!!

En samsagt, Raggi minn er búinn að fá sér vespu!!!
Ég veit ekki ennþá hvað mér finnst um þetta farartæki, en það líkist einna helst slátturvél á tveimur gúmmíum með Nilfisk mótor!! Markmiðið með tryllitækinu er að komast í og úr skóla með litlum tilkostnaði og í leiðinni að gefa mér það frelsi á daginn að ég ráði í hvaða búð ég ferWhistling

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá kallinn mæta á fáknum, með vígalegan raserhjálm á höfðinu var.....Ómægod, er hægt að vera minna æsandi!!
Það verður bara að viðurkennast að þessi "mótorhjól" eru bara ekkert getnaðarleg, allavegana sé ég ekki alveg fyrir mér að Terminator 2 hefði náð sömu vinsældum með Arnold Schwarzenegger á vespu!!

En allavegana.....fákurinn á eflaust eftir að reynast vel og hver veit.....kannski verður kallinn bara ansi flottur á vespunni næsta sumar í stuttbuxum og ermalausum??!!

vespa_superman.preview


Fyrr má nú fyrr vera óstressið!!

Það er ekki ofsögum sagt að Danirnir séu "ligeglad". Allt tekur langan tíma hér í Danmörku, hvort sem þú ert að kaupa húsgögn, sækja um þjónustu eða að senda póst!!

Við erum búin að kaupa ýmis húsgögn síðan við komum, eldhúsborð, stóla, skenk, kommóðu, skáp, hillu og fleira. Hillurnar eru ekki enn komnar (liðinn mánuður) og þurftum við að bíða í 2 vikur eftir skápnum og skenknum. Þegar það loksins kom þá var skenkurinn gallaður og vantaði festingar á skápinn. Raggi fór og lét panta festingar fyrir um 3 vikum og komu þær loksins fyrir helgi. En þá komu að sjálfsögðu rangar festingar og þurfum við að bíða núna í aðrar 2 vikur. Það skal tekið fram að ég nennti ekki að gera mál úr gallanum í skenknum þar sem ég var orðin óþolinmóð að fá hann og nennti ekki að bíða í aðrar 2 vikur eftir nýjum!!

En núna það nýjasta er helv.....pósturinn. Málið er að besta vinkona Hermanns átti afmæli fyrir mánuði síðan og sendum við henni afmælispakka. Það eru liðnar meira en þrjár vikur síðan við sendum pakkann (sem var nú bara bólstrað umslag með fötum í) og var hann að komast til skila Í GÆR!!! Þetta finnst mér eiginlega vera einum of "ligeglad", samt kostaði 2000 kr. að senda þennan litla létta pakka, en það var með B-pósti (sem var kannski ekki beint til að flýta afgreiðslunni). 

Spurning hvort það sé fljótlegra að senda flöskuskeyti heldur en að senda bréfapóst til Íslands??? Hefur einhver kannað það???


Gómsæti maðurinn minn!

Síðustu vikurnar hefur maðurinn minn verið talinn afar gómsætur....að mati flugnanna!!!

Hann er svo bitinn af "mugginum" og fær þvílíku útbrotin og bólgurnar að hann gæti fengið hlutverk í heimildarmynd um holdsveiki án þess að þurfa í makeup.

mosquitoÉg var hrikalega bitin fyrstu dagana mína hér í Danaveldi og fékk mörg ljót sár á fæturna, rassinn og hendurnar en síðan hef ég nánast verið látin í friði, 7,9,13. Þessu er öfugt farið með minn elskulega mann, hann var ekkert bitinn í fyrstu en fær heldur betur að kenna á því núna. Er örugglega með hátt í 50 bit um allan líkamann og hefur greinilega ofnæmi undan bitunum. Hann er því núna farinn að borða margfaldan skammt af B-vítamíni (sem honum var ráðlagt í apóteki) og vonar það besta.

En þrátt fyrir allar þessar bólgur og roða þá er hann alltaf jafn sætur fyrir mérInLove


Vinkonur mínar...silfurskotturnar!!

Það er svo skrýtið að ég hef alltaf heyrt að það VERÐI að eitra fyrir silfurskottum og að það sé vísbending um raka sem VERÐI að laga. Allir út úr húsi "med det samme" og kalla á meindýraeyði!!

Hér heima hjá mér er allt fullt af þessum litlu fallegu skottum. Fyrst fékk ég nett áfall þegar ég sá eina á stærð við járnsmið skjótast yfir forstofuna hjá mér, en núna kippi ég mér ekkert upp við þær. Málið er að þær eru alveg skaðlausar og þar sem allt er fullt af raka hér í Mosanum, sérstaklega þar sem allt svæðið er byggt á mýri, þá þykir bara eðilegt að silfurskottur séu hér á meðal köngulónna.

Þannig að ég hef tekið þá ákvörðun að fyrst ég get ekki rekið þær út, þá verð ég bara að gera þær að vinkonum mínum, enda krúttlegar og silfurlitaðarTounge

250px-Silberfischchen


Einn góður svona í morgunsárið:)

Þrír synir afar guðhræddrar móður fóru að heiman til að spreyta sig á lífinu.
Allir áttu þeir miklu láni að fagna og græddu peninga í stórum fúlgum.
Að mörgum árum liðnum hittust þeir og ræddu meðal annars um gjafirnar
sem þeir höfðu sent aldraðri móður sinni.

"Ég reisti henni mömmu myndarlegt hús," sagði sá fyrsti.

"Ég sendi henni eitt stykki Mercedes Benz með bílstjóra," sagði annar.

"Ég gerði enn betur," sagði sá þriðji. "Þið munið hvað mamma hafði mikla unun
af að lesa Biblíuna og að hún er farin að missa sjón.
Þess vegna sendi ég henni stóran, brúnan páfagauk sem kann hana alla utan að.
Það tók tuttugu presta tólf ár að kenna páfagauknum þetta.
Verkefnið kostaði milljón dollara á ári, en það var þess virði.
Mamma þarf ekki annað en að nefna rit, kafla og vers
og þá fer páfagaukurinn með textann."

Skömmu síðar sendi móðirin sonum sínum þakkarbréf.

Til fyrsta sonarins skrifaði hún:
"Kæri sonur! Húsið sem þú byggðir er risastórt.
Ég bý aðeins í einu herbergjanna en þarf að þrífa allt húsið."

Sonur númer tvö fékk eftirfarandi bréf:
"Elskaði sonur! Ég er orðin alltof gömul til að ferðast.
Ég er alltaf heima og nota Bensinn aldrei. Bílstjórinn er óttalegur dóni."

Þriðja syninum sendi móðirin þessi skilaboð:
"Yndislega afkvæmi! Þú varst eini sonurinn sem gerðir þér grein fyrir
hvernig ætti að gleðja hana móður þína.
Kjúklingurinn var hreinasta hnossgæti!"

Takk Elín mín fyrir alla góðu brandarana....they make my dayTounge


« Fyrri síða | Næsta síða »

Hver er ég?

Berta María Hreinsdóttir
Berta María Hreinsdóttir

Er Húsvíkingur í húð og hár....gift byggingarfræðinema og eigum við tvo fallega stráka . Er þroskaþjálfi og bý í Horsens, Danmörku. Blogga um það sem mér dettur í hug hverju sinni, en sleppi pólítík og öðru sem ég hef takmarkaðan áhuga á!

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband