Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hættulega gott......

Á mánudaginn fékk ég góðan næturgest frá Árósum......hún Kidda, sem var að vinna á SSR eins og ég kom til Horsens til að hjálpa Kollu og Hlyn að flytja og gisti hjá okkur eftir flutninginn. Við komum heim um miðnætti og settumst niður með rauðvín og osta og höfðum það voða huggó fram eftir nóttu:) Raggi bauð okkur smakk á víni sem tengdó færði okkur um daginn......Haustsól heitir vínið og er unnið úr ýmsum jurtum, þar að meðal fjallagrösum og átti ég nú ekki von á að það myndi smakkast vel. En jeminn hvað þetta var gott og þótt ótrúlegt sé þá var einhvers konar haust-bragð af því. Og þrátt fyrir að vera 32 prósent áfengt þá var þetta mjög milt og rann ljúflega niður. Hauststólin er svona týpiskt vín sem hægt er að drekka sig blindfullan af á stuttum tíma (svona fyrir það sem eru í þeim pakkanum), en við létum 2 staup næga með rauðvíninu....enda skynsamar og ábyrgar konur, hóst, hóst!!

Mæli með Haustsól frá Húsavík**

husavik_iceland

 Myndir frá Húsavík, fallegasta stað Íslands.husavik


Bráðum get ég sko þurrkað:)

Já....búið er að panta þurrkara á heimilið. Mikið er ég glöð og hlakka SVO til á þriðjudaginn því þá kemur hann í hús. Loksins get ég þurrkað þvott án þess að það taki tvo daga og viftu. Ástæðan fyrir því að ég fæ þann heiður að eiga þurrkara er að ég á bestu tengdamömmu í heimi!! Ástarþakkir til þín tengdó***

Þegar við Raggi fórum að skoða þurrkara þá urðum við svolítið hissa á því að það er ekki hægt að fá þurrkara í A-orkuflokki nema svo dýra að maður þarf að selja úr sér nýrun fyrir þeim, en að sjálfsögðu var planið að fá sér þurrkara í þeim orkuflokki því rafmagnið er dýrt í Danmörku.
B-orkuflokkurinn er algengari en C er algengastur og sá eini sem er á "verði með viti". Við völdum því barkalausan, Blomberg, í C-klassa og erum í skýjunum með það.

70713531715144231155028621331317707959

 Á þriðjudaginn verð ég hamingjusamasta húsmóðir í heiminum með flotta þurrkarann minnSmile


Luktirnar komnar á!

Við familíjan skelltum okkur í hjólreiðartúr seinnipartinn í gær og kíktum í heimsókn til Sigga frænda míns og fjölskyldu í næstu "sveit". Við stoppuðum aðeins lengur en planað var og þegar við vorum að fara frá þeim var komið myrkur, ekki alveg svartamyrkur en það stefndi í það óðfluga. Siggi frændi benti mér á það að ef löggan sæi okkur þá yrðum við sektuð um 550 kr. danskar fyrir hvort hjól. 550 krónur samsvarar um 6000 ísl. krónur (svona fyrir ykkur sem ekki fylgist með genginu:) Við fengum náttúrulega nett spark í rassgatið og hjóluðum heim eins hratt og pedalar toguðu og vorum Guðslifandi fegin að engin lögga var á ferðinni. Í dag var það því fyrsta verk að bruna í Fötex og kaupa luktir á hjólaparið. En það skal tekið fram að það verður að vera lukt að framan og aftan ef ekki á að sekta mann!!
Þetta finnst mér snilld við Danmörku......það er sektað fyrir allt. 550 kr. ef þú gleymir að stilla P-skífuna í bílnum þegar þú leggur honum, 550 kr. ef þú hjólar á gangbraut, 550 kr. ef þú labbar yfir á rauðum kalli osfrv.  Við Raggi höfum ekki alveg lært þessar ströngu reglur og hjóluðum "óvart" upp á gangstétt um daginn og vitir menn.....fengum hróp og köll á eftir okkur frá manni sem var að viðra hundinn sinn á gangstéttinni. Hvað blessaður kallinn sagði veit ég ekki...en eflaust eitthvað mjög vandað.

Það eina sem mér finnst vanta við þessar ströngu reglur Dana og háu sektir er að það er örugglega ekki sektað fyrir að hundurinn þinn skvetti úr sér nettum dodda. Alls staðar eru standar með pokum fyrir hundaeigendur en samt er alltaf hundaskítur um allt. Ég t.d. náði einum nýbökuðum um daginn.......var að forðast að keyra ekki barnakerrunni á gamla konu á hjóli og fór með vinstri dekkin beint yfir miðja hrúguna. Við náðum með engu móti að ná ógeðinu af dekkinu með því að fara í gras og hjakkast þar með kerruna og þurftum að smúla dekkin þegar við komum heim.
Ég hefði náttúrulega bara átt að láta vaða í gömlu kellinguna!!! Segi svona!!


Kítl í klobba eða brókafæla????

Ég á rosalega fínar útisnúrur. Ég keypti þær af fyrrum leigjendum íbúðarinnar og varð alsæl með þau kaup. Ég hef búið á 3 stöðum í Reykjavík undanfarin ár og hvergi verið aðstaða fyrir útisnúrur, en ég er alin upp við það að hengdur sé út allur þvottur, hvort sem er í 20 stiga hita eða -20 stiga gaddi. Þegar ég flutti hingað til Danmerkur þá varð ég voða dugleg að hengja út......í 3 daga. En þá komst ég að því að það þurfti helst að þvo allan þvott aftur eftir að hann hafði hangið úti. Málið er að það er ekkert venjulega mikið af köngulóm hér í Mosanum og vefirnir eru ÚT UM ALLT. Ef ég t.d. skúra ekki á hverjum degi eldhúsgólfið þá fyllast öll horn af vef, alveg satt!!
En ég hef semsagt ekki hengt út þvott núna í næstum 2 mánuði og þurrka allt á þvottagrind inn á baði við opinn glugga sem ég er búin að strengja net yfir til að forðast flugur og önnur kvikindi og á álagstímum stilli ég viftu sem blæs á þvottinn líka.

Þess vegna furða ég mig alltaf á því hvernig Danirnir fara af því að hengja svona mikið út eins og þeir gera. Alls staðar hangir þvottur, ýmist í görðum eða í bílskýlum. Ég get rétt ímyndað mér vefina á þvottinum þegar hann er tekinn inn. Stundum sé ég nærföt hanga úti líka, ekki bara sokka...neiiiii....heldur brækurnar líka. Ég fæ þá alltaf hroll í pjölluna og hugsa til þess að það hljóti að vera slatti af vef, jafnvel heilu dordinglarnir sem leynist í spjörunum. Ja nema brækurnar séu bara hreinlega óhreinar og séu hengdar út á snúru til að fæla burtu köngulærnar svo þvotturinn fái frið??!!??!! 

Cartoon_Spider


Skítur skeður!!

Í morgun fórum við Hermann litli á róló.......það er nú ekki frásögum færandi nema að því leyti að ég varð fyrir nettu áfalli. Við höfum ekki áður farið á þennan tiltekna leikvöll hér í Mosanum og við munum ekki fara þangað aftur!! Öll tækin ónýt, öll málning farin af, búið að brjóta handföng og annað af leiktækjunum, rennibrautin smurð í sanddrullu þannig að það eina sem virkaði var lítið krúttlegt hús sem Hermann notaði sem búð. Eftir að hafa verslað pylsur, pizzur, Svala og fleira fyrir gervipening þá varð mér litið inn í húsið. Á einum veggnum var búið að fletja út og klína mjög snyrtilega stórum hundaskít. Mér varð þá litið í kringum mig og sá að það var hundaskítur um allt. Þvílíkur og annar eins vibbi......svo ég tali nú ekki um allan kattaskítinn sem við óðum án þess að taka eftir því enda er sá skítur ansi líkur sandinum eftir rigningu síðustu daga, en ég veit að það er nóg af honum, enda kettir út um allt!!!  Ég er nokkuð viss um að þeir drengir (já ég segi drengir, því stúlkur myndu aldrei hafa geð á að klína hundaskít) sem klíndu hundaskítnum hafa bara hreinlega ekki haft neitt annað að gera á leikvellinum. Öll tækin ónýt og ekkert við að vera og þá verður maður bara að nota þann efnivið sem maður finnur og nota svo hugmyndaflugið.

Í Mosanum (leiguhverfinu okkar) eru um 200 íbúðir og þar af búa Íslendingar í tæplega helming þeirra. Ætli það sé ástæðan fyrir þessum ónýta leikvelli??? Við vitum að skemmdarfíkn Íslendinga er engu lík.  Maður spyr sig........


« Fyrri síða

Hver er ég?

Berta María Hreinsdóttir
Berta María Hreinsdóttir

Er Húsvíkingur í húð og hár....gift byggingarfræðinema og eigum við tvo fallega stráka . Er þroskaþjálfi og bý í Horsens, Danmörku. Blogga um það sem mér dettur í hug hverju sinni, en sleppi pólítík og öðru sem ég hef takmarkaðan áhuga á!

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband